Mánaðarlega mun Karfan birta kraftröðun í vetur. Þar er ekki aðeins tekin til staða liðanna í deildinni, heldur einnig breytingar á leikmannahópum og það gengi, eða sú sveifla sem liðið er í á hverri stundu.

 

Nú skal 1. deild karla skoðuð. Það sem horft er til í þessari annarri útgáfu eru sigrar í deildinni (og gegn hvaða liðum), tölfræði liðanna og almennt hvernig liðið lítur út á vellinum. Tekið skal fram að við höfum haft rangt fyrir okkur áður og lið mega alveg hætta að væla yfir marklausri stöðu sinni í þessari kraftröðun samkvæmt mati Karfan.is.

 

Örvarnar á þessum lista merkja færslu liða á milli mánaða.

 

 

 

 

#1: Skallagrímur

 

 

Skallagrímsmenn byrja tímabilið vel og eru á toppi deildarinnar, en hafa enn ekki þurft að mæta hinum toppliðunum tveimur. Þeir eru aftur á móti að leiða deildina í framlagi, stigum og skotnýtingu þannig að í bili taka þeir toppstöðuna af Blikunum. Þeir eiga þó tvö topplið eftir í næstu tveimur viðureignum sínum svo við sjáum hvað setur í desember.

Breyting: Upp um eitt sæti

 

Næstu 5 leikir:

13. nóvember    @ Breiðablik

16. nóvember    gegn Vestri

23. nóvember    gegn FSu

01. desember    @ Fjölnir

03. desember    gegn Hamar

 

 

#2: Breiðablik

 

 

Blikar hafa staðið sig vel og unnu fyrstu fjóra leikina sína, þ.á.m. leik gegn Vestra sem er meðal toppliðanna, en eftir tæpt tap gegn Hamri í seinustu umferð þá falla þeir um eitt sæti í röðuninni. Viðureign þeirra við Skallagrím næsta mánudag mun segja til um hvaða lið er best, en þangað til þá eru þeir aðeins á eftir Borgnesingum.

Breyting: Niður um eitt sæti

 

Næstu 5 leikir:

11. nóvember    @ ÍA

13. nóvember    gegn Skallagrímur

19. nóvember    @ Snæfell

26. nóvember    @ Gnúpverjar

01. desember    @ Vestri

 

 

#3: Vestri

 

 

 

Þrátt fyrir að hafa úr fáum leikmönnum að moða og að allt byrjunarliðið er að spila yfir 30 mínútur að meðaltali í leik þá eru Vestramenn í öðru sæti deildarinnar og líta vel út. Það gæti komið þeim í vandræði seinna á tímabilinu að leggja svona mikið á leikmenn sína í hverjum leiknum á fætur öðrum en í bili rísa þeir í þriðja sætið.

Breyting: Upp um eitt sæti

 

Næstu 5 leikir:

03. nóvember    gegn Hamar

16. nóvember    @ Skallagrímur

26. nóvember    @ Snæfell

01. desember    gegn Breiðablik

03. desember    @ Gnúpverjar

 

 

#4: Snæfell

 

 

Í Stykkishólmi er allt ágætt að frétta, Snæfellsmenn eru að fremstir 1. deildar liðanna í þriggja stiga nýtingu og eru líka duglegir að komast á vítalínuna. Þeir eru í 4. sæti í deildinni og núna í 4. sæti í kraftröðuninni.

Breyting: Upp um eitt sæti

 

Næstu 5 leikir:

12. nóvember    @ Gnúpverjar

19. nóvember    gegn Breiðablik

26. nóvember    gegn Vestri

31. nóvember    @ FSu

03. desember    gegn Fjölnir

 

 

#5: Fjölnir

 

 

 

Liðið úr Grafarvoginum hefur aðeins rétt af hlut sinn eftir afleita byrjun. síðan þeir skiptu um erlendan leikmann sinn og fengu inn Samuel Prescott Jr. Vandinn er að það eru ekki það margir aðrir í liðinu sem eru að gera sitt. Þar til þeir vinna fleiri leiki eru þeir miðjumoðarar í kraftröðuninni.

Breyting: Upp um eitt sæti

 

Næstu 5 leikir:

10. nóvember    gegn Gnúpverjar

13. nóvember    gegn Hamar

24. nóvember    @ ÍA

01. desember    gegn Skallagrímur

03. desember    @ Snæfell

 

 

#6: Hamar

 

 

 

Lærisveinar Péturs Ingvarssonar eru betri en talið var í fyrstu, en það er ekki langt liðið á tímabilið og væntingar gætu vel staðist, enda hafa Hamarsmenn aðeins unnið tvö nauma leiki. Annar var gegn toppliði Blika en hinn gegn ÍA. Erfitt að segja með Hvergerðinga, í bili verða þeir í 6. sæti.

Breyting: Upp um tvö sæti

 

Næstu 5 leikir:

10. nóvember    gegn FSu

13. nóvember    @ Fjölnir

17. nóvember    gegn Gnúpverjar

01. desember    gegn ÍA

03. desember    @ Skallagrímur

 

 

#7: Gnúpverjar

 

 

 

Gnúpverjar hafa sýnt að þeir eru ekki jafn slæmir og við töldum í fyrstu, en þeir eiga langt í land ef þeir ætla sér að fara upp um þriðju deildina á þremur árum. Þeir hafa hingað til getað unnið liðin fyrir neðan sig. Sjöunda sætið er þeirra þar til þeir sigra lið fyrir ofan sig.

Breyting: Upp um tvö sæti

 

Næstu 5 leikir:

10. nóvember    @ Fjölnir

12. nóvember    gegn Snæfell

17. nóvember    @ Hamar

26. nóvember    gegn Breiðablik

03. desember    @ Vestri

 

 

#8: FSu

 

 

FSu eru vonbrigði 1. deildarinnar í ár. Þjálfarinn hefur nú þegar verið rekinn og Karl Ágúst Hannibalsson tekinn við í bili. Það virðist eitthvað plaga liðið, þeir virðast ekki getað unnið nauma leiki hingað til og eru því fallkóngar kraftröðunarinnar.

Breyting: Niður um 5 sæti

 

Næstu 5 leikir:

10. nóvember    @ Hamar

17. nóvember    @ ÍA

23. nóvember    @ Skallagrímur

30. nóvember    gegn Snæfell

04. desember    @ Breiðablik

 

 

#9: ÍA

 

Skagamenn hafa farið verr af stað en búist var við og það er ekki útlit fyrir að hagur þeirra vænkist á næstunni, sérstaklega í ljósi brotthvarfs Áskells Jónssonar reynslubolta og meiðsla Dereks Shouse. Þó að þeir séu ekki í neinni hættu með að falla niður í 2. deild að þessu sinni þá er ekki útlit fyrir að þeir muni eiga ánægjulegt tímabil. Botnsætið er þeirra.

Breyting: Niður um tvö sæti

 

Næstu 5 leikir:

10. nóvember    gegn Breiðablik

17. nóvember    gegn FSu

24. nóvember    gegn Fjölnir

01. desember    @ Hamar

08. desember    gegn Gnúpverjar