Valsmenn voru með pálmann í höndunum í Ljónagryfjunni í kvöld, leiddu allan leikinn sem í andarslitrunum féll Njarðvíkingum í skaut. Lokatölur 86-83 Njarðvík í vil þar sem Valsmenn voru við stýrið allan tímann nema þegar það skipti máli.

Á lokasekúndunum var Njarðvík 84-83 yfir og Valur átti innkast. Njarðvíkingar komu fingri í boltann sem fór af velli en heimamönnum dæmdur boltinn, stór dómur en sjá má atvikið hér sem sett var inn af Domino´s körfuboltakvöld á Twitter eftir leik:

Þáttaskil
Valsmenn voru með þetta að jafnaði 5-10 stiga forskot í leiknum en þegar fjórði leikhluti var ríflega hálfnaður jafnaði Terrell Vinson leikinn 75-75. Valsmenn komust þó eftir það í 79-83 en skoruðu ekki eftir það.

Hetjan
Það er ekki hlaupið að því að finna einhverja eina hetju úr þessum leik í kvöld. Eitt af stærri atvikum leiksins er þegar Ragnar Helgi Friðriksson stelur boltanum fyrir Njarðvík og Valsmenn verða að brjóta á honum, Ragnar fór og setti bæði vítin þar sem heimamenn voru með skotrétt og staðan 86-83. Ragnar var svo varnarmaðurinn eins og sést í video-atvikinu hér að ofan og því ljóst að tvö af stóru atriðum leiksins umhverfast í kringum Ragnar.
Austin Bracey var drjúgur fyrir Val í kvöld með 22 stig og þá áttu þeir Illugi Steingrímsson og Urald King flotta spretti. Benedikt Blöndal var ódrepandi í varnarleik Vals og nálgun gestanna á leikinn, hátt og gott tempó og stemmning í vörninni var að halda þeim við stýrið í næstum 40 mínútur. Njarðvíkurmegin var Terrell Vinsson sterkur með 26 stig og 19 fráköst en hann var ekki einn um tvennu Njarðvíkurmegin því Ragnar Nathanaelsson bætti við 14 stigum og 14 fráköstum.

Kjarninn
Njarðvíkingar hafa reyndari leikmenn en Valur innan sinna raða. Leikmenn sem hafa farið í fleiri „close“ leiki í úrvalsdeild og það hjálpaði í kvöld. Lafði lukka var þarna líka og allt það en síðustu leikir Vals gegn KR og Njarðvík hafa verið mjög jafnir leikir þar sem Valsmenn hafa í bæði skiptin þurft að lúta í lægra haldi. Ef þeir sjóast hratt þá fara þeir að loka þessum leikjum og hala inn stigum enda voru þeir baráttuglaðir í kvöld og má vel segja að þeir hefðu átt meira skilið en að halda stigalausir út á Reykjanesbraut.

Tölfræði leiksins
Myndasafn – Skúli Sig