Haukar tóku á móti Njarðvík í áttundu umferð Dominos deildar karla í kvöld. Bæði lið komu full sjálfstrausts til leiks en þau unnu góða sigra í síðustu umferð sem fór fram fyrir örfáum dögum. Leikurinn var ansi ójafn frá upphafi og virtist sem gestirnir væru komnir í landsleikjahléið í huganum.

 

Þáttaskil:

 

Eftir tiltölulega jefnan fyrsta leikhluta gengu Haukar á lagið og kláruðu nánast leikinn í öðrum leikhluta. Vörn Njarðvíkur var mjög döpur í leikhlutanum en allt virtist enda ofan í sem Haukar hentu að körfunni. Njarðvík var fljótt að missa haus og virtist hafa litla sem enga trú á að geta komið til baka í seinni hálfleik. 

 

Lokastaðan 108-75 fyrir Hauka sem hafa nú unnið tvo erfiða leiki á fjórum dögum. 

 

Tölfræðin lýgur ekki:

 

Haukar hittu úr 60% skota sinna í leiknum. Þar af 38% þriggja stiga nýting eða 11 skot. Liðið er með 33 stoðsendingar sem gefur skýra mynd af frammistöðu Hauka sem tóku alltaf aukasendinguna og boltinn gekk frábærlega. 

 

 

Hetjan: 

 

Emil Barja kom frábærlega inn af bekknum í þessum leik, hann endaði með 10 stig, 7 fráköst og 6 stoðsendingar í leiknum. Þess fyrir utan var Kristján Leifur mjög góður í leiknum og Kári Jónsson stýrði liðinu ótrúlega vel en fékk að hvíla meirihluta seinni hálfleiks. Allir leikmenn liðsins lögðu eitthvað í púkk og má því segja að liðsheildin hafi verið hetjan. 

 

Kjarninn: 

 

Haukar áttu frábæran leik í dag þar sem leikgleðin og liðsheildin skein skært. Kári Jónsson stýrir liðinu eins og herforingi og hefur bætt liðið ævintýralega mikið. Það er ótrúlegt að nánast sami kjarni lék með Haukum á síðasta tímabili þegar nánast ekkert gekk upp. Það sýnir hvað liðskörfubolti og leikgleði getur komið liðum langt. 

 

Njarðvík virtist hafa litla trú og nennu í þennan leik. Liðið bognaði hratt undan áhlaupum Hauka og virtist ekki vera tilbúið að leggja mikið á sig til að komast aftur inní leikinn. Eftir frábæra leiku uppá síðkastið taka þeir þessa frammistöðu inní landsleikjahléð sem gæti reynst dýrt. Deildin er ótrúlega jöfn og því skiptir hver einasti leikur máli og hvert einasta tap gæti orðið rándýrt.

 

 

Tölfræði leiksins.

 

Myndasafn (Bára Dröfn)

 

Viðtöl eftir leik:

 

 

 

 

Umfjöllun og viðtöl / Ólafur Þór Jónsson

 

Myndir / Bára Dröfn