Helena Sverrisdóttir (efst), Sigrún Sjöfn Ámundardóttir (neðri til vinstri) og Thelma Dís Ágústsdóttir (neðri til hægri), leikmenn A-landsliðs kvenna á blaðamannafundi

 

"Það var rosa erfitt að sitja á hliðarlínunni og geta ekki tekið þátt þegar maður er búin að vera í þessu svona lengi þannig að það er bara ótrúlega gaman að vera komin aftur." sagði Helena Sverrisdóttir um að hafa verið frá A-landsliðinu í svona langan tíma meðan að hún var í barneignaleyfi. Henni líst vel á hópinn og segir þetta vera flotta blöndu af eldri og yngri leikmönnum. "Yngri stelpurnar hafa fengið fullt traust núna seinustu ár og eru búnar að sýna að þær eru að standa sig vel. Það verður gaman að sjá blönduna núna."

Thelma Dís Ágústsdóttir, ein af yngri stelpunum í liðinu, líst vel á verkefnið og finnst hópurinn góður. "Við erum margar góðar og mikil samkeppni á æfingum. […] Gaman að vera hluti af þessum hóp og taka þátt í þessu." Sigrún Sjöfn Ámundardóttir tekur í sama strenginn: "Flottur hópur sem er tilbúin að taka á þessu."

Landsliðið mætir Svartfellingum kl.16:00 næsta laugardag 11. nóvember í Laugardalshöllinni. Til að ná sigri gegn Svartfellingum og hinum liðunum í riðlinum þá sagði Sigrún Sjöfn: "Ef að við höldum þessum liðum í 65-70 stigum, þá eigum við góðan möguleika, varnarleikurinn hefur verið fínn hjá okkur þannig að það er spurning hvernig sóknarleikurinn verður og hvort að við náum ekki að stríða þeim aðeins." Helena bætir við: "Þær eru náttúrulega með hörkulið og þetta eru lið sem eru að fara í lokakeppnina ár eftir ár þannig að við vitum alveg að þetta verður erfitt en við verðum náttúrulega að mæta tilbúnar. Það þýðir ekkert að vera hræddar á móti þessum liðum og við verðum bara að vera með baráttu og varnarleik upp á 10.?"

Hér að neðan má sjá öll viðtölin í heild sinni

 

Helena Sverrisdóttir
 

Sigrún Sjöfn Ámundardóttir

Thelma Dís Ágústsdóttir