Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) sendi í dag frá sér rökstutt álit varðandi 4+1 regluna sem gildir í íslenskum körfubolta. Síðastliðið sumar gaf ESA íslenskum stjórnvöldum þriggja mánaða frest til þess að koma röksemdum sínum á framfæri, en því var ekki svarð. Mun þetta því vera annað stigið í samningsbrotamáli gegn íslenska ríkinu, en það næsta er EFTA dómstóllinn.

 

 

Álit EFTA:

 

Körfuboltamenn frá öðrum EES ríkjum eiga að hafa sömu réttindi til atvinnu á Íslandi og íslenskir leikmenn. Svokölluð „4 + 1 regla“ Körfuknattleikssambands Íslands felur í sér að körfuboltafélagi er aðeins heimilt að hafa einn erlendan leikmann á vellinum í hverjum leik. Samkvæmt rökstuddu áliti sem Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) sendi Íslandi í dag felur þetta í sér brot á skuldbindingum ríkisins samkvæmt EES-samningnum.

 

„Einn grunnþátta EES-samningsins er sameiginlegi vinnumarkaðurinn, sem gerir Íslendingum kleift að starfa í öðrum Evrópulöndum og njóta réttinda þar. Samningurinn er gagnkvæmur og körfuboltamaður frá öðru EES ríki sem spilar á Íslandi á því að njóta sömu réttinda og íslenskir leikmenn,“ segir Helga Jónsdóttir, stjórnarmaður ESA 

 

Sameiginlegi vinnumarkaðurinn í Evrópu gerir launþegum kleift að flytja milli EES-ríkja og sinna störfum án mismununar. Þegar íþrótt er skilgreind sem atvinnugrein og fólk hefur af henni laun, fellur hún undir frjálsa vinnumarkaðinn, og þar með undir EES-löggjöf. Erlendir leikmenn frá EES-löndum eiga því að hafa sömu réttindi og íslenskir leikmenn og það gera þeir ekki samkvæmt „4+1 reglunni“, en mismunun á grundvelli þjóðernis brýtur í bága við EES-samninginn.

 

ESA sendi Íslandi formlegt áminningarbréf fyrr í sumar og gaf íslenskum stjórnvöldum þriggja mánaða frest til þess að koma röksemdum sínum á framfæri. Eftir framlengdan frest hefur enn ekkert svar borist. Rökstudda álitið sem ESA sendi Íslandi er annað stigið í samningsbrotamáli gegn íslenska ríkinu. Verði ekki brugðist við innan tveggja mánaða getur ESA vísað málinu til EFTA-dómstólsins.