Keflavík sigraði Þór fyrr í kvöld, 98-79, í 5. umferð Dominos deildar karla. Eftir leikinn er Keflavík í efsta sæti deildarinnar ásamt KR, Tindastól og ÍR á meðan að Þór er í 10.-11. sætinu líkt og Valur.

 

Fyrir leik

Bæði lið unnu sína leiki í síðustu umferð. Keflavík gegn Haukum og Þór sigraði Stjörnuna. Þórsarar sigursælir í Keflavík á síðasta tímabili, þar sem þeir bæði sigruðu heimamenn í deild sem og slógu þá út úr bikarkeppninni.

 

Gangur leiks

Keflavík var sterkari aðilinn á flestum sviðum körfuboltans í leik kvöldsins. Komust mest 19 stigum yfir í fyrri hálfleik. Þór gerði þá vel í að hleypa þeim ekki of langt frá sér, héldu muninum mest allan fyrri hálfleikinn í kringum 10 stig. Þegar liðin héldu til búningsherbergja í hálfleik var Keflavík með 11 stiga forystu, 53-42.

 

Í upphafi seinni hálfleiksins gerði Þór atlögu að forystu heimamanna. Komust 6 stigum næst þeim þegar að um 3 mínútur voru eftir af þriðja leikhlutanum, 63-57. Nær komust þeir þó ekki, Keflavík setti aftur í fluggírinn og fóru mest í 27 stiga forystu áður en þeir kláruðu svo leikinn með 19 stiga sigri.

 

Þáttaskil

Eftir á að hyggja leit þessi Þór aldrei út fyrir að ætla að ná að vinna sig inn í þennan leik. Fyrir utan upphafsmínútur leiksins, þegar Keflavík sigldi frammúr, má segja að önnur þáttaskil hafi verið þegar að Keflavík setti forystu sína úr 6 stigum í 27 á stuttum kafla um miðjan seinni hálfleikinn.

 

Tölfræðin lýgur ekki

Bekkur Keflavíkur skoraði 37 stig í leik kvöldsins á móti aðeins 16 hjá Þór.

 

Hetjan

Cameron Forte var atkvæðamestur í annars mjög jöfnu Keflavíkurliði í kvöld. Setti 27 stig, tók 11 fráköst, gaf 5 stoðsendingar og stal 3 boltum á þeim 29 mínútum sem hann spilaði. Sóknarlega einkar skilvirkur, þar sem hann setti 13 af 17 skotum sínum af vellinum.

 

Tölfræði leiks

Myndasafn

 

Umfjöllun, viðtöl / Davíð Eldur

Myndir / SBS

 

Viðtöl: