Bandaríkjamaðurinn Jesse Pellot Rosa hefur leikið sinn síðasta leik fyrir Þór í Þorlákshöfn. Samkvæmt fréttatilkynningu frá félaginu fyrr í dag hefur hann lokið störfum þar. Leikmaðurinn snéri sig illa þann 15. október síðastliðinn í bikarleik gegn Tindastól og hefur gengið hægt að batna.

 

Þór náði í annan bandarískan leikmann fyrir þar síðasta leik, DJ Balentine, en höfðu Rosa með í bæði síðasta leik gegn Val og leiknum þar á undan gegn Tindastól. Segja þeir að ekki sé fyrirséð með hvenær leikmaðurinn komist á fullt aftur og því hafi verið samið um starfslok. Félagið þakkar honum samstarfið og óskar honum góðs gengis í framtíðinni.