Ívar Ásgrímsson gat ekki annað en verið sáttur eftir þægilegan sigur:

 

Þetta var mjög öruggt í kvöld og þú ert væntanlega bara sáttur eftir leikinn?

 

Jájá, þetta var þægilegur sigur. Sóknin okkar var fín mestallan leikinn en við sýndum smá kæruleysi varnarlega. Það vantaði líka að ná að drepa leikinn, við náðum þessu í 16-20 stig en þeir köttuðu þetta aftur og aftur niður í 10-12 stig í staðinn fyrir að ná að klára þetta alveg. En mér fannst við flottir sóknarlega og góð stjórnun á henni í leiknum. Kári er að koma betur inn í þetta og aðeins að róast, hann stjórnaði okkur vel í kvöld. Hann og Emil þurfa að finna svolítið taktinn saman – við prófuðum að nota Emil svolítið öðruvísi í dag, hann var varnarlega í fjarkanum og meira að segja sóknarlega líka. Við vildum aðeins prófa það og það gekk bara ágætlega. En hann er náttúrurlega frábær varnarmaður og leysir bara það sem honum er sagt að leysa. Hjálmar er okkar besti einn á einn varnarmaður og byrjaði á Kananum í dag en við misstum hann út vegna veikinda en það kom ekki að sök.

 

Arnór og Hilmar komu flottir inn í fyrri hálfleik og áttu stóran þátt í að búa til forskotið í öðrum leikhluta, þú hlýtur að vera sáttur með þeirra framlag?

 

Já þeir komu mjög sterkir inn báðir tveir, einkum í fyrri hálfleik. Svo voru þeir aðeins kærulausir í seinni hálfleik og héldu kannski að þeir væru í einhverjum yngri flokkum ennþá og voru að gefa kæruleysislegar sendingar. Þetta er kannski svolítið svona með þessa ungu leikmenn, þeir halda að þetta sé búið þegar svo er ekki.

 

Nú þurftuð þið að sætta ykkur við tap bæði gegn Keflavík og Tindastóli í síðustu tveimur umferðum. Það er væntanlega svolítil vonbrigði að tapa báðum þessum leikjum?

 

Já það var það og mér fannst við mjög slakir á móti Keflavík. Á móti Stólunum var hins vegar margt jákvætt og þar hefði sigurinn geta lent hvoru megin sem var. Það var bara jafn leikur og við vorum að spila þar á móti mjög flottu liði og við sýndum það að við erum alveg jafnfætis því liði. Það vantaði smá gæði í lokin hjá okkur í þeim leik og smá kaflar í leiknum sem réði úrslitum þar. 

 

Nú er næsti leikur í Vesturbænum á móti KR – þið hljótið að hafa metnað til að mæta þangað með það í huga að taka stigin með ykkur heim?

 

Já auðvitað – við erum að fara þangað til að vinna, það er ekkert öðruvísi.

 

Nánar má lesa um leikinn hér. 

 

Viðtal / Kári Viðarsson