ÍR og Snæfell áttust við í dag í 16-liða úrslitum Maltbikarsins. Leikurinn fór fram á heimavelli ÍR-inga í Hertz-Hellinum í 109 Breiðholti. ÍR hefur farið vel af stað í Domino‘s deild karla og situr í 1.-4. sæti með 8 stig en Snæfell, sem féll úr Domino‘s deild karla á síðustu leiktíð, situr í 4.-5. sæti í 1. deildinni.

 

Leikurinn var nokkuð jafn fyrstu þrjá leikhlutana þótt ÍR hafi alltaf verið skrefi framar en það dróg í sundur með liðunum í fjórða leikhluta og ÍR-ingar lönduðu þægilegum sigri 99-76.

 

Skor eftir leiklhutum: 22-13 / 48-39 / 77-61 / 99-76.

 

Byrjunarlið ÍR: Matthías Orri Sigurðarson – Kristinn Marinósson – Sigurkarl Róbert Jóhannesson – Ryan Taylor og Danero Thomas

Byrjunarlið Snæfells: David Christian Colvine – Geir Elías Úlfur Helgason – Viktor Marinó Alexandersson –  Jón Páll Gunnarsson – Sveinn Arnar Davíðsson.

 

Það var heldur tómlegt um að litast á áhorfendapöllunum í Hertz-Hellinum þegar ÍR tók á móti Snæfelli í 16-liða úrslitum Maltbikarsins í karlaflokki. Kannski var það óverðrið sem geisaði úti við sem hélt aftur af áhorfendum að mæta en það stoppaði þó ekki Snæfellinga í að berjast í gegnum storminn suður fyrir fjall. Óvíst er þó hvort þeir komist heim í kvöld, en vonandi verður þó fært í bíó fyrir Hólmara til að stytta sér stundir þangað til að þeir komast aftur heim.

 

Leikurinn fór rólega af stað og var jafn framan af og ljóst að Snæfellingar ætluðu að gefa allt í verkefnið. ÍR-ingar voru hins vegar frekar rólegir í sínum aðgerðum og var eins og þeir ætluðu ekki hafa of mikið fyrir hlutunum. Snæfellingar hittu frekar illa í fyrsta leikhluta og skutu mikið fyrir utan þriggja stiga línuna enda með heldur lágvaxnara lið. Þeir réðu illa við Ryan Taylor og aðra hávaxnari leikmenn ÍR. Staðan eftir fyrsta leikhluta var 22-13 ÍR í vil. Snæfell náði að jafna leikinn um miðjan annan leikhluta og fór Geir Elías mikinn með þrjár þriggja stiga körfur á stuttum tíma. ÍR-ingar náðu þó aftur forystu og leiddu í hálfleik 48-39. Snæfellingar stóðu vel í heimamönnum í síðari hálfleik en undir lok þriðja leikhluta keyrðu ÍR-ingar upp hraðann og sigu hægt og rólega fram úr. Svo fór að ÍR sigraði með 99 stigum gegn 76. 

 

Þáttaskil

 

Snæfellingar stóðu vel í ÍR-ingum fyrstu þrjá leikhlutana en ÍR-ingar gátu róterað mikið í sínu liði og spilað á fleiri mönnum en Snæfellingar og þegar líða tók á leikinn þá sigu ÍR-ingar hægt og rólega fram úr.

 

Tölfræðin

 

Stigahæstur hjá ÍR-ingum var Ryan Taylor með 24 stig en Kristinn Marinósson átti einnig fínan leik og skoraði 21 stig. Hjá Snæfellingum var Geir Elías stigahæstur með 20 stig en þar af komu 18 þeirra úr þriggja stiga körfum. Christian Covile kom þarf á eftir með 18 stig. 

 

Sagt eftir leik – þjálfarar liðanna

 

Ertu ánægður með leik þinna manna?

 

Borche Ilievski Sansa þjálfari ÍR.

 

„Ég er ánægður með að hafa unnið leikinn en ég er ekki ánægður með hvernig leikmenn mínir nálguðust leikinn þrátt fyrir að við höfðum rætt um annað. Þrátt fyrir að við leiddum allan leikinn og höfðum þetta í hendi okkar þá var ég ekki ánægður með hugafarið. Við náðum að hvíla lykilmenn okkar í þessum leik sem er gott af því að á þriðjudaginn eigum við erfiðan leik á móti Þór Þorlákshöfn. Ég held að leikmenn mínir hafi haft hugann við þann leik og því gáfu þeir sig ekki allan í þennan leik. En við sigruðum og það er það sem skiptir máli. Við hlökkum til að sjá hverja við fáum í næstu umferð. Snæfell stóðu sig vel og þeir mættu fannst mér með rétt hugarfar í leikinn og reyndu sitt besta og vil ég þakka þeim fyrir góðan leik og áhorfendum fyrir stuðninginn.“

 

Ingi Þór þjálfari Snæfells.

 

„Við áttum ekki góðan dag og hittum illa, við sýndum það í síðasta deildarleik að við erum gott skotlið en sá leikur sat kannski aðeins í okkur. Við spiluðum í dag við eitt af topp liðunum í Domino‘s deildinni og vorum í hörkuleik við þá nánast allan tímann. Það var aðeins undir lokin þegar við skiptum yngri leikmönnunum inn á að það skildi almennilega að. Ég er ánægður með að við reyndum allan leikinn en við spiluðum ekki nógu vel og vorum full villtir í okkar aðgerðum. Við leystum pressuna frá þeim illa og mér fannst munurinn á liðunum helst vera að þeir fengu mikið af auðveldum stigum eftir stolna bolta.“

 

Tölfræði leiksins

 

Myndasafn 

 

Umfjöllun og myndir: Þorsteinn Eyþórsson