Snæfell náði í góðan útisigur gegn Breiðablik í 7. umferð Dominos deildar kvenna í kvöld. Karfan ræddi við þjálfara Snæfells Inga Þór Steinþórsson eftir leik.

 

Varðandi leikinn í kvöld og hvað hafi skapað þennan sigur fyrir þær sagði Ingi:

 

"Trúin á að vinna hélt okkur inní þessu og reynslan að 18 stig er ekki mikil forysta í körfubolta. Berglind Gunnars steig upp ásamt við náðum að herða tökin og stoppa í götin sem voru á vörninni okkar. Ég er mjög stoltur af þessum sigri og hvernig allar dömurnar lögðu sig fram til að kreista þennan mikilvæga sigur fram."

 

Eftir leikinn er Snæfell í 5.-7. sæti ásamt Breiðabliki og Keflavík, en miðað við árangur síðustu ára er það ansi ólíkt því gengi sem lið Snæfells hefur fagnað. Aðspurður út í hvernig honum finnist tímabilið fara af stað hjá þeim sagði Ingi:

 

"Við erum mjög fámenn og það er mjög erfitt – það má lítið útaf bregað og við söknum Maríu Björns mikið. Við erum hinsvegar ánægð með eininguna í liðinu og markmiðin okkar eru skýr, með því náum við að vinna og bæta okkar leik með hverjum leiknum. Við erum núna með fleiri stelpur í Reykjavík en fyrir vestan og þetta er mjög snúið. Ég er mjög stoltur af öllum leikmönnum og þeim sem að liðinu koma hvernig við látum hlutina ganga upp."