Vestri og Hamar mættust í 1. deild karla á Jakanum á Ísafirði í kvöld. Hamar var nýbúið að skella toppliði Breiðabliks í síðustu umferð á meðan Vestri kom inn í leikinn með þriggja leikja sigurgöngu.

Jafnræði var með liðunum framan af, utan smá kafla í öðrum leikhluta þar sem Hamar náði 10 stiga forustu en sá munur var komin í 2 stig í hálfleik.

Vestri náði forustunni strax í þriðja leikhluta, með þriggja stiga körfu frá Nökkva Harðarsyni, og létu hana ekki af hendi eftir það. Mest náður þeir 17 stiga forustu í leikhlutanum. Með áhlaupi náðu þeir muninum niður í 4 stig, 85-81, þegar þrjár mínútur voru eftir en nær komust þeir ekki og skoruðu vestanmenn síðustu 8 stig leiksins. Lokastaðan 93-81.

Hetjan
Nökkvi Harðarson, fyrirliði Vestra, átti líklegast sinn besta leik í Vestrabúningi en hann endaði með 26 stig, 8 fráköst og 7 stoðsendingar. Hann tók leikinn yfir í þriðja leikhluta þegar hann skoraði 15 stig og lagði upp 4 önnur. Þess má geta að Nökkvi er að nýta 74,4% tveggja stiga skota sinna í vetur.

Kjarninn
Hvergerðingar réðu illa við vestfjarðatröllið Nemanja Knezevic sem var eins og maður á meðal minniboltakrakka í leiknum. Tví- og þrídekkanir á hann opnaði vel fyrir aðra leikmenn og ef þeir hittu ekki þá var bókað að Nemó næði frákastinu og skilaði því rétta leið. Skilaði hann þriðju 20-20 tröllatvennunni í hús í vetur en hann er með 22,5 stig og 19,8 fráköst að meðaltali í leik.

 

Tölfræði leiks
 

Umfjöllun / Sturla Stígsson