Höttur komst í kvöld í átta liða úrslit Maltbikarsins með sigri á Þór Ak í 16. liða úrslitum. Höttur sem hafði einungis unnið einn leik á tímabilinu gegn 1. deildar liði ÍA. Liðið náði loksins í sigurinn langþráða gegn úrvalsdeildarliði og hefndi um leið ósigursins á Akureyri fyrir nokkrum vikum. 

 

Umfjöllun um helstu þætti leiksins má finna hér að neðan:

 

 

Þór 74 – Höttur 81

 

Staðan eftir leikhlutum: 26-20 / 9-14 / 26-20 / 13-27

 

Segja má að Þórsarar hafi verið sjálfum sér verstir í kvöld þegar þeir þurftu að láta í minni pokann gegn baráttuglöðum Hattarmönnum lokatölur 74-81.

 

Það voru þó Þórsarar sem byrjuðu leikinn betur og um miðjan fyrsta leikhlutann virtist sem Þór ætlaði að taka leikinn í sýnar hendur. Þegar rétt um sjö mínútur voru liðnar af leiknum hafði Þór náð ellefu stiga forskoti 21-10. Þá kom fínn kafli hjá gestunum sem skoruðu 10 stig gegn fimm Þórs og staðan eftir fyrsta leikhluta 26-20.

 

Annar leikhluti var Þórsliðinu erfiður og reyndar gestunum líka en leit þó skömminni skár út fyrir þá. Þórsarar skoruðu ekki fyrr en þrjár mínútur voru liðnar en þá höfðu gestirnir minnkað muninn í eitt stig 26-25, þá kom fyrsta karfa Þórs í leikhlutanum þristur frá Marques Oliver 29-25.

 

Þór náði svo fimm stiga forskoti á ný 35-30 en þá bættu gestirnir í og allt hljóp í baklás hjá Þór og næstu fimm stig voru gestanna. Höttur vann leikhlutann 9-14 og Þór leiddi með einu stigi í hálfleik 35-34.

 

Hattarmenn byrjuðu síðari leikhlutann mjög vel og skoruðu fyrstu stigin og komust yfir 35-36. Gestirnir leiddu fram í miðjan leikhlutann með mest 4 stigum en í stöðunni 46-48 setti Ingvi Rafn niður þrist og kom Þór yfir á ný 49-48. Þórsarar höfðu ágæt tök á leiknum næstu mínúturnar og virtust ætla sigla fram úr og náðu mest sjö stiga forskoti sem var munurinn á liðunum þegar lokakaflinn hófst. Þór 61 Höttur 54. 

 

 

Höttur byrjaði fjórða leikhlutann vel og þegar fjórar mínútur voru eftir höfðu þeir minnkað muninn í eitt stig 66-65 og mikil spenna komin í leikinn. Hér urðu alger kaflaskil í leiknum á meðan Þórsarar gerðu sig seka  um allt of mörg mistök, tapaða bolta og hittni afleit gengu gestirnir á lagði og settu niður hverja körfuna á fætur annarri. síðustu sjö mínútur leiksins skoruðu gestirnir 16 stig gegn 8 Þórs og sigldu öruggum 7 stiga sigri í höfn 74-81.

 

Það verður að segjast alveg eins og það er að Þórsarar voru sjálfum sér verstir í kvöld og það vita strákarnir sjálfir. En það verður ekki tekið af leikmönnum Hattar að þeir gáfust aldrei upp og uppskáru eftir því. Sex leikmenn Þórs komust á blað yfir skoruðu í leiknum en átta leikmenn Hattar.

 

Í liði Þórs var Marques Oliver stigahæstur með 19 stig og 19 fráköst, þeir Pálmi Geir og Ingvi Rafn voru með 16 stig hvor Pálmi var ennfremur með 10 fráköst og Ingvi Rafn 8 stoðsendingar. Sindri Davíðs 9 stig og þeir Hreiðar Bjarki og Bjarni Rúnar með 7 stig hvor. 

 

Í liði Hattar var Kevin Michaud Lewis með 24 stig 7 fráköst og 7 stoðsendingar. Mirko Stefan Virijevic 16 stig og 13 fráköst, Ragnar Gerald Albertsson 10 stig, Bergþór Ægir og Sigmar Hákonarson 9 stig hvor, Andrée Fares Michelsson 7 stig, Hreinn Gunnar Birgisson 4 stig og Gísli Þórarinn Hallsson 2. 

 

Tölfræði leiksins

 

Myndasafn (Palli Jóh)