Antonio Hester leikmaður Tindastóls fór útaf í öðrum leikhluta í leiknum gegn Keflavík í gær. Hann meiddist á ökkla og lék ekkert meira með liðinu í gær. 

 

Nú er komið í ljós að Hester er ökklabrotinn og verður frá í 2-3 mánuði, þetta tilkynnti félagið nú fyrir stuttu. Það er gríðarlegt áfall fyrir Tindastól sem ætlar sér stóra hluti í vetur. 

 

Hester hefur verið frábær hingað til á tímabilinu og var meðal annars komin með 16 stig þegar hann fór útaf meiddur í sigrinum á Keflavík í gær. Hann er með 22 stig og 9 fráköst að meðaltali á þessu tímabili. 

 

Samkvæmt tilkynningu Tindastóls fór Hester í gegnum rannsóknir í morgun og kom þá í ljós að hann væri ökklabrotinn. Læknar hafa gefið honum 2-3 mánuði þangað til hann nær sér að fullu. 

 

„Er þetta vissulega mikið högg fyrir félagið enda um að ræða einn besta leikmann liðsins, en eins og oft hefur verið sagt áður að það hefur aldrei blásið það mikið að það lægi ekki aftur.“ segir formaður Körfuknattleiksnefndarinnar Stefán Jónsson í tilkynningunni. 

 

Tindastóll fær Þór Þ í heimsókn í næstu umferð í Dominos deildinni eftir viku. Ljóst er að liðið verður án Hester en óvíst er hvort liðið semji við annan erlendan leikmann en félagaskiptaglugganum lokar 15. nóvember.