Feykir greinir frá því í dag að erlendur leikmaður Tindastóls, Antonio Hester, sé ekki brotinn á ökkla. Eftir að hann snéri sig illa í leik 6. umferðar gegn Keflavík var haldið að svo væri. Þá var það mat lækna eftir myndatökur að ökkli hans væri brotinn og að hann yrði frá í allt að þrjá mánuði.

 

Ómmynd sem Hester fór í í dag sýndi þá að um gömul meiðsl var að ræða á myndinni og er því gert ráð fyrir að Hester verði kominn mun fyrr af stað með liðinu að sögn formanns félagsins Stefáns Jónssonar.

 

Þá sagði Stefán einnig frá því að þau meiðsl sem að leikstjórnandi liðsins, Pétur Rúnar Birgisson, varð fyrir í leik gærkvöldsins gegn Þór hafi ekki verið alvarleg og að um tognun hafi verið að ræða.