Fyrir landsleikjahlé möluðu Haukar Njarðvík í Domino´-deild karla 108-75 sem var jafnframt stærsta tap Njarðvíkinga í sögunni úti í Hafnarfirði. Í dag endurtóku Haukakonur svo leikinn með því að valta yfir Njarðvíkinga í Ljónagryfjunni í Domino´s-deild kvenna. Lokatölur 57-98! Cherise Daniel var stigahæst í liði Hauka í dag með 30 stig en Shay Winton var með 16 stig í liði Njarðvíkinga.

Haukar leiddu 8-28 eftir fyrsta leikhluta og það var ekki eins og það væri einhver fluggír á gestunum. Heimakonur gerðu þeim verkið auðvelt, Njarðvíkingar hittu ekki neitt og voru gríðarlega andlausir í öllum sínum aðgerðum. Haukar gengu á lagið og leiddu svo 22-58 í hálfleik og á því jafnar sig enginn og eftirleikur Hafnfirðinga því auðveldur.

Það tekur því í raun ekki að lýsa þeim hamförum sem Njarðvíkingar urðu fyrir í þessum leik en nokkuð ljóst að Haukar hafa heldur betur brýnt klærnar frá ósigrinum gegn Stjörnunni í síðustu umferð. Einhverjir héldu kannski að eftir útreiðina í fyrri hálfleik myndu Njarðvíkurkonur mæta brjálaðar inni í síðari hálfleik en þær voru jafn flatar  í seinni hálfleik og kökurnar sem Tóta selur í völdum verslunum á suðvesturhorni landsins.

Haukar fengu fjölbreytt framlag í dag, vörnin þétt og léttleikinn í fyrirrúmi hjá Hafnfirðingum. Njarðvíkingar að sama skapi þurfa allhressilega naflaskoðun ef þær eiga ekki að falla í 1. deild fyrir jólafrí.

Einhverjar ambögur virðast hafa verið á tölfræðinni í dag hjá Live Stat og munum við birta tölfræði leiksins um leið og umsjónarkerfið kemst í lag.

Myndasafn úr leiknum