Íslenska kvennalandsliðið í körfubolta mætti til City Arena Ruzomberok í kvöld til að freista þess að sækja sigur gegn kvennalandsliði Slóvakíu. Þrátt fyrir ágætan leik framan af þá urðu stelpurnar okkar og að sætta sig við 78-62 tap eftir erfiðan fjórða leikhluta.
 

Frá fyrstu mínútu virtust stelpurnar okkar mættar og voru mjög góðar að finna sóknartækifæri fyrstu 10 mínúturnar. Með samstilltu átaki og nokkrum vel völdum þriggja stiga skotum hjá Sigrúnu Sjöfn Ámundadóttur náðu þær að loka fjórðungnum með tveggja stiga forystu, 15-17 Íslandi í vil.

Slóvaska liðið náði aðeins betur saman í öðrum leikhlutanum og tóku fljótlega forystuna en þær íslensku voru ekki hættar að berjast enda leyfðu þær muninum aldrei að verða meiri en 7 stig og náðu á lokasekúndum fyrri hálfleiksins að minnka muninn aftur í 5 stig. 37-32 fyrir Slóvökum í hálfleik.

Þriðji leikhlutinn var mjög flottur hjá þeim íslensku en þær settu hvern þristinn á fætur öðrum, Helena Sverrisdóttir og Thelma Dís Ágústsdóttir settu tvo þrista hvor og Þóra Kristín Jónsdóttir bætti einum við sömuleiðis. Meðan á þessu stóð virtist heimaliðið vera í basli með að koma boltanum inn í teig á tímabili og þær töpuðu 6 boltum í þessum leikhluta. Þær voru þó duglegar að hitta úr tveggja stiga skotunum sínum, en þær settu 6 af 10 í tvistum á meðan að Ísland tók aðeins 4 skot fyrir innan þriggja stiga línuna og hitti úr tveimur þeirra. Staðan eftir þriðja leikhluta var 57-51 fyrir Slóvakíu.

Í lokafjórðungnum virtist allt loft fara úr okkar stelpum, en þær skoruðu aðeins 3 stig gegn 12 stigum heimastúlkna á fyrstu 5 mínútunum og staðan orðin 69-54. Á þessum tímapunkti voru þær komnar í svæðisvörn til að reyna takmarka stigaskorið í teignum, en þá byrjuðu slóvösku stelpurnar bara að láta boltann ganga og fengu nægilega opin skot til að geta haldið þeim íslensku í hæfilegri fjarlægð frá sér og munurinn fór aldrei niður fyrir 10 stig. Slóvakía sigldi sigrinum í höfn á seinustu tveim mínutunum með tveimur þristum og einu vítaskoti ofan í gegn aðeins einu slíku víti frá íslenska liðinu. Lokastaðan varð því 78-62 fyrir Slóvakíu.
 

Þáttaskil

Í fjórða leikhlutanum fóru stelpurnar okkar úr því að skjóta af öryggi fyrir utan og lítið fyrir innan í að klikka á ógrynni af skotum fyrir innan þriggja stiga línuna og að taka einungis þrjú skot fyrir utan hana. Á síðustu 10 mínútunum skutu Slóvakarnir 4/6 í tveggja stiga skotum og 4/10 í þristum á móti meðan að íslensku stelpurnar okkar hittu aðeins úr 4/11 í tveggjum og klikkuðu á öllum þremur tilraunum sínum fyrir utan þriggja stiga línuna. Þetta ásamt allt of mörgum töpuðum boltum (11 slíkir í seinasta leikhluta, 5 þeirra Hildar Bjargar Kjartansdóttur) skildi liðin að á lokametrunum.
 

Leikmenn leiksins

Žofia Hruš?áková og Sabína Oroszová, mínutuhæstu framherjar Slóvakíu í leiknum, reyndust þeim íslensku mjög erfiðar. Báðar eru hávaxnari en allt lið Íslands og þær settu samtals 34 stig, tóku 22 fráköst, stálu 6 boltum, gáfu 4 stoðsendingar og voru samanlagt með 48 framlagsstig. Í liði Íslands var Helena Sverrisdóttir framlagshæst með 22 stig, 7 fráköst, 6 stoðsendingar og tvo stuldi, en hún lauk leik 23 framlagsstig.
 

Tölfræðin lýgur ekki

Það sem skildi liðin að í þessum leik tölfræðilega séð var skotnýtingin, en Slóvakía tapaði boltanum ekki minna né fengu þau fleiri hraðaupphlaupskörfur. Þær hittu betur fyrir innan þriggja stiga línuna (45.7% vs. 32.4%) og utan hana (40.0% vs. 33.3%) og klikkuðu varla á vítaskoti í leiknum (81.8% vs. 68.8%).
 

Kjarninn

Íslenska landsliðið sá í þessum leik að þær eiga alveg að geta unnið þetta lið, þær bara gerðu aðeins of mörg mistök undir lokin. Talað var um að þær hefðu átt tvo góða leikhluta í seinasta leik gegn Svartfjallalandi og í þessum áttu þær þrjá góða leikhluta. Það dugar bara ekki alltaf gegn góðum liðum eins og þessum. Þær íslensku geta unnið Slóvaka í heimaleiknum, en til þess verða þær að hitta betur úr tveggja stiga skotum sínum og halda andstæðingunum í verri skotnýtingu en þetta.
 

Tölfræði leiksins
 

Umfjöllun / Helgi Hrafn Ólafsson