Umræðan eftir landsleikinn á mánudaginn hefur verið umtalsverð og mikil gagnrýni borist á þjálfarateymið eftir leikinn sem er auðvitað fínt í sjálfu sér. Að mínu mati er það þó fullmikil einföldun hjá sérfræðingum  sem hvað mest hafa tjáð sig á fréttamiðlum síðustu daga, að segja að allt hefði farið vel ef Tryggvi hefði bara verið inn á – án þess að greina það nokkuð hvað varð til þess að hann fór út af – því það er auðvitað gjörsamlega ómögulegt um að segja og mjög auðvelt að halda fram eftir á.

 

Það hefur farið eilítið í taugarnar á mér þessi “hot take” menning sem virðist vera festa rætur innan körfuboltaumfjöllunar á Íslandi. Það virðist snúast meira um upphrópunarmerkin í fyrirsögninni en innihaldið í greininni og almennilega greiningu á íþróttinni. Og þeir sem virðast hafa sig mest í frammi eru oftar en ekki menn og konur með mikla vigt innan íþróttarinnar, oft fyrrum landsliðsmenn eða þjálfarar, sem ala á neikvæðri umræðu, í þessu tilviki um þjálfarann og (mest eldri) leikmenn liðsins án þess að hafa mikla röksemd á bakvið gagnrýni sína. Bara hot takes með upphrópunarmerkjum. Tryggva inn!!! Sigga Þorsteins í hóp!!! Yngja upp!!! Og þetta er allt saman gert þegar vel gengur, á mesta blómaskeiði í sögu íslensks körfubolta! Ég þykist hafa ágætar heimildir fyrir því að þessi neikvæðni lak inn í íslenska hópinn i sumar þegar kórinn hóf upp raust sína eftir 2 leiki í Helsinki og vinnuframlag leikmanna var meira segja gagnrýnt! Og enn og aftur var engin fagleg greining að baki, engar tölur, engin leikfræði – bara upphrópanir og neikvæðni. Tölurnar frá mánudeginum sýna til dæmis að Tryggvi var með -2 í +/- í leiknum þrátt fyrir að fara út af með 7 mínútur eftir og forysta Íslands frá í fyrri hálfleik kominn niður í aðeins 3 stig.  

Tryggvi er einn af mörgum ofboðslega efnilegum strákum sem við eigum í íslenskum körfubolta og verður klárlega máttarstópur landsliðins þegar fram í líður. En það má ekki gleyma því að hann er enn tiltölulega nýkominn inn í liðið, nýbyrjaður að læra leikstíl liðsins og þá ekki síst varnarleik liðsins. Koma Tryggva inn í landsliðið breytir varnarskipulagi liðsins umtalsvert, skipulagi sem hefur verið við líði síðan Peter Öqvist tók við liðinu árið 2012. Skipulagið snýst í grunninn um aggressívar skiptingar á boltascreenum andstæðingana á milli allra leikmanna inn á vellinum með fyrirfram ákveðnum og frekar fastmótuðum róteringum frá veiku hliðinni til að tvöfalda á mismatch á póstinum.

Það hefur auðvitað tekið langan tíma að fá alla á sömu blaðsíðu í þessum varnarleik, og í alþjóðlegum körfubolta er okkur fljótt refsað fyrir minnstu  frávik frá réttum róteringum eftir skiptingar. Ef einn leikmaður er of seinn í tvöföldum á póstinum, eða í þriðju hjálp á splitti – þá erum við einfaldlega að spila á móti andstæðingum sem finna þær glufur og þau opnu skot auðveldlega.

Eins og áður sagði þá breytist þetta varnarskipulag með komu Tryggva, og í raun í fyrsta sinn í mörg ár sem við fáum inn “big” sem að skiptir ekki á screenum. Hans hlutverk verður því að “containa” boltascreen, eða svokallað “catch hedge” á amerísku, þar sem hann situr bak við boltascreenið og þarf að loka á bæði drive og rúll að körfunni. Þetta krefst ekki einungis allt annara róteringa frá öðrum leikmönnum liðsins (þ.á.m. hjálp frá vængnum niður á stóran mann sem rúllar að körfunni) heldur þurfa þeir bakverðir líka að fara í allt annað action á boltascreenum, ýta sér yfir screenið í stað skiptingar, til að koma Tryggva yfir á rúllarann.

Búlgarir eru engir nýgræðingar í körfuboltafræðum og vissu alveg hvernig þeir ættu að ráðast á slíka vörn. Í byrjun leiksins reyndu þeir á fótavinnunna hans Tryggva með það að keyra sterkt á hann upp að körfunni – en eins og með U20 í sumar þá sýndi Tryggvi að hann er með stórkostlega fótavinnu miðað við stærð og hóf leikinn á 3 blokkum ef ég man rétt. Hann náði alltaf að traila bakverði þeirra vel út úr þessu high screen actioni og truflaði að auki mýmörg skot þeirra án þess að verja þau. Með öðrum orðum flott byrjun frá risanum úr Bárðardal. Það var hins vegar alveg ljóst að Búlgarir voru ekki að fara halda þessari taktík til streitu eftir þessa byrjun frá Tryggva. Ég horfði á leikinn aftur í hádeginu og það var gerð skýr taktisk breyting af þjálfara búlgarska liðsins. Í stað þess að senda þungu, stóru menn sína inn í hátt screen á toppnum, voru þeir með stærri skotmenn inn á, þá aðallega nr 12 og Vesenkov nr 41 leikmann Barcelona í þessu actioni og létu þá poppa út úr screeninu í stað þess að rúlla. Til að annaðhvort þvinga okkur í skiptingu með Tryggva eða til að ráðast inn, fá tvöfölduna þar og senda hann aftur út í opið skot með Yanev (sem var með 48.5% þriggja stiga nýtingu hjá Beroe í búlgörsku deildinni í fyrra) og Vezenkov  (47% þriggja stiga nýting með Barcelona í Euroleague í fyrra) sem settu 4 þrista samanlagt í leiknum. Þar byrjaði bæði Tryggvi og íslenska liðið að lenda í vandræðum með Tryggva inn á. Hvort það var svo réttlætanlegt að kippa honum alveg út í 4. leikhluta er svo spurning sem ekki er hægt að fá svar við og því fáranlegt að fullyrða með sleggjum þar um.  Stærsta vandamál okkar inn í teignum í 4. leikhluta var aðallega þristurinn þeirra, Pavel Marinov nr 10, sem skoraði  11 af 24 stigum Búlgara í lokaleikhlutanum og áttu Jakob og Haukur báðir í miklum vandræðum með hann. Þar hefði vera Tryggva lítið bætt úr skák.

 

Að þessu sögðu þá er ágætt að minna á það að Tryggvi var aðeins búinn að æfa einu sinni með liðinu fyrir leikinn á mánudaginn. Hann kom til landsins á sunnudag og náði kvöldæfingu með liðinu þann daginn. Þess vegna fannst mér það að mörgu leyti djaft af Craig að byrja með Tryggva inn á, það er spurning hvort honum hafi fundist hann þurfa að kveða niður einhverjar gagnrýnisraddir með því. Eðli þessara glugga er þannig að liðið hefur lítinn tíma til taktískra æfinga, sem að skýrir að mörgu leyti landsliðsvalið að þessu sinni. Strákar sem hafa verið þarna áður, kunna skipulagið og þurfa ekki mikla upprifjun eru valdir, í stað mikillra breytinga. Það er því reynt að rokka ekki bátnum of mikið.

Tryggvi er klárlega framtíðarmiðherji Íslands og mun verða frábær leikmaður. En það segir sig sjálft að leikmaður sem aðeins er 20 ára gamall, breytir öllu varnarskipulagi liðsins þegar hann er inn á og nær aðeins einni æfingu með liðinu fyrir leikinn – spili ekki meira en 21 mínútu.

Það voru klárlega ýmis mistök gerð í 4. leikhluta sem eru gagnrýnisverð;  röng playcall, of margir tapaðir boltar, slæmar róteringar í nokkrum tilvikum, þreyttir/meiddir lykilleikmenn í villuvandræðum og auðveldar körfur sem við gáfum eftir sóknarfráköst. En að öll gagnrýnin snúist um spilatíma Tryggva finnst mér ósanngjart gagnvart þjálfarateyminu. Þeir þurfa einfaldlega meiri tíma til að aðlaga leik liðsins að Tryggva og hans stöðu sem lykilmanns á vellinum, aðlaga varnarleikinn og aðlaga sóknarleikinn að því með hann sem eina stóra manninn inn á vellinum. Það þarf því miður meira en eina æfingu til þess.

 

– Hörður Unnsteinsson