ÍA tók á móti FSu í botnslag 1. deildar í kvöld.  Liðin sátu saman í síðasta sæti og voru bæði án sigurs í deildinni fram að þessum leik og því gefið fyrir leikinn að annað liðið yrði áfram án sigur að leik loknum.
Svo fór að FSu fann fyrsta sigurinn á meðan ÍA er enn að leita en geta huggað sig við það að þeir vita að þeir þurfa að leita upp því það er ekkert fyrir neðan.

 

 

Reið baggamuninn

 

Síðustu 5 mínútur leiksins varð það sem reið baggamuninn í kvöld.  Mjög algengt var að leikurinn væri jafn eða annað liðið leiddi með einu en eftir að staðan var jöfn 74:74 skoruðu leikmenn ÍA 6 stig á móti 13 stigum leikmanna FSu og staðfestar lokatölur 80-87.
Virkilega skemmtilegt fyrir FSu en sorglegt fyrir ÍA en þetta er 5 leikurinn í vetur af 8 í deild og bikar sem ÍA tapar á loka mínútunum.

 

 

Leikur að tölum því tölur ráða úrslitum

 

Leikurinn í kvöld var mjög jafn.  Liðin skiptust 15 sinnum á forystu í leiknum og alls var 14 sinnum jafnt.  ÍA náði mest 6 stiga forystu í leiknum á meðan FSu náði mest 10 stiga forystu en það gerðist þegar 1:20 mín. voru eftir af leiknum.

Hvað varðar einstaklings tölfræðina þá var nýji leikmaður ÍA hann Marcus Dewberry stigahæstur heimamanna með 26 stig auk þess að gefa 6 stoðsendingar og taka 6 fráköst.  Jón Orri hlóð svo í eina 11 – 11 tvennu.

Hjá FSu var Charles Speelman stigahæstur með 26 stig og var með 50% skotnýtingu bæði í 2ja stiga og 3ja stiga skotum sínum í leiknum, vel gert.  Hlynur Hreinsson setti niður 17 stig og Ari Gylfason var með 15.

 

Nánari tölfræði úr leiknum má nálgast hér

 

Í hnotskurn

 

Báðum liðum langaði mjög að vinna í kvöld.  Það er reyndar alltaf þannig að bæði lið vilja vinna, enda gengur leikurinn út á það, en það var extra mikið þannig í kvöld þar sem liðin voru, eins og áður sagði, búin að tapa öllum leikjum sínum hingað til á tímabilinu.  Skagamenn bættu svo við smá auka spennukryddi á aðalrétt kvöldsins þar sem þeir tefldu fram tveimur nýjum leikmönnum.  Annar þeirra var Marcus Dewberry sem kom til liðsins frá Bandaríkjunum og lofar góðu upp á framhaldið en einnig var Helgi Hrafn Þorláksson að spila sinn fyrsta leik fyrir félagið en hann kom frá Ármenningum með fulla ferðatösku af reynslu sem hann á eftir að tína uppúr í komandi leikjum.

 

Þegar leið á þennan jafna leik reyndi á hovrt liðið væri með meira á tanknum til að komast upp brekkuna sem liðin voru bæði í.  Það kom á daginn að FSu var með meira á tanknum og eru nú komnir upp fyrstu hæðina og spennandi fyrir þá að sjá hvernig fjallið framundan lítur út á meðan ÍA situr enn eftir í brekkunni, spenntir að fara að sjá fjallið sitt sem þeir eiga eftir að klífa í vetur.

 

Texti: HGH

Mynd: Jónas H. Ottósson