Eloy Doce Chambrelan hefur verið látinn taka pokann sinn sem þjálfari meistaraflokks FSu. Þetta ákvað stjórn félagsins í gær og tilkynnti á heimasíðu sinni. Eloy var ráðinn til liðsins fyrir síðasta tímabil og skilaði liðinu í 7. sæti á síðasta tímabili en liðið missti þá af úrslitakeppninni eftir að hafa fallið úr efstu deild tímabilið áður. 

 

Fyrir þetta tímabil voru nokkrar væntingar gerðar til FSu og var ljóst að liðið ætlaði sér stóra hluti í 1. deildinni. Uppskeran var hinsvegar ekki eftir væntingum en liðið er enn án sigurs eftir 6 leiki og tapaði síðustu tveimur heimaleikjum gegn Gnúpverjum og Fjölni sem var spáð í neðri hluta deildarinnar fyrir tímabilið. Samkvæmt heimasíðu FSu var ástæðan fyrir brottrekstrinum eftirfarandi „Gengi liðsins hefur ekki verið skv. væntingum og þrátt fyrir ákveðnar breytingar og heiðarlegar tilraunir af allra hálfu til að snúa gengi liðsins við hefur það ekki tekist.“

 

Karl Ágúst Hannibalsson mun taka við þjálfun liðsins tímabundið en nýráðinn aðstoðarþjálfari liðsins Iván Guerrero verður honum til aðstoðar. Á heimasíðu FSu þakkar liðið Eloy fyrir vel unnin störf og fer fögrum orðum um spánverjan. FSu vonast til þess að geta gengið frá ráðningu nýs þjálfara í næstu viku. 

 

Eloy Doce þakkaði þá FSu fyrir tækifærið á Twitter í gær auk þess sem Ari Gylfason leikmaður liðsins sendi honum kveðju á forritinu.