Ef einhver hefði sagt mér að ég ætti eftir að mæta á „press-pass“ frá karfan.is til að skrifa um leik í Iðu á Selfossi, þá hefði ég sent viðkomandi rakleitt í læknisskoðun!  En þetta er raunin, grindvíski penninn mættur á leik Fsu og Snæfells í 1. deildinni og er bara spenntur!  Ekki langt í grindvísku tenginguna þar sem hinn ungi og efnilegi Grindvíkingur, Nökkvi Már Nökkvason leikur með Snæfelli.

 

Gengi liðanna ólíkt en heimamenn hafa strögglað hingað til, með einungis 1 sigur í 9 leikjum.  Snæfellingar hins vegar með 6/3.

 

Gangur leiksins.

Heimamenn virkuðu sprækari í byrjun og voru á undan upp  úr startblokkunum. Gott flæði var á sóknarleiknum hjá þeim með góðri blöndu af „inside/outside“.  5 stigum munaði eftir opnunaratriðið, 26-21.  Snæfellingar komu svo ákveðnir til leiks í 2. leikhluta og fljótlega var leikurinn orðinn hnífjafn.  Tveir menn áberandi hvað skorun varðar, hinn smái en knái Hlynur Hreinsson hjá heimamönnum með 14 stig eftir 15 mínútur og Kani Snæfellinga, Christian Coville með 11.  Eitthvað virtust gestirnir koma værukærir til leiks því hið minnsta 2x í fyrri hálfleik hirtu heimamenn frákast eftir vítaskot en það á nokkurn veginn að vera bannað!  Í báðum tilvikum fylgdi þristur og var ljóst á látbragði Inga Þórs þjálfara að hann var ekki par sáttur og eftir fyrra skiptið gerði hann umsvifalaust skiptingu!

 

Áðurnefndur Hlynur Hreinsson lokaði fyrri hálfleiknum með glæsilegum þristi og gat því stuðlað að því að heimamenn nytu hálfleik-tesins þeim mun betur en eitthvað segir mér að Ingi Þór hafi sett hárþurrkuna í gang í hálfleik og spurning hvort það dugi til að vekja hans menn. 

 

Hlynur kominn með 18 stig og Coville áfram atkvæðamestur gestanna með 14 stig en grindvíska skyttan kom sterkur upp í lokin og var komin með 10 punkta, með 2/3 í þristum. 

 

Hárþurrkuræða Inga greinilega virkaði því eftir 6 mínútur í 3. leikhluta voru hans menn að vinna fjórðunginn 12-19 en þá tók Ari Gylfason til sinna ráða og smellti tveimur flottum þristum og Ingi var fljótur að taka leikhlé!  Lítið breyttist og Ari hélt uppteknum hætti og var hreinlega SJÓÐANDI heitur!  Eitthvað fór þetta allt í skapið á Inga Þór og fékk hann dæmda á sig tæknivillu fyrir að sýna fram á knattspyrnulega hæfileika sína þegar hans  menn sendu boltann aftur fyrir miðu!  Ari tók svo sannarlega við keflinu af Hlyni frænda sínum en hann var kominn með 23 stig eftir 3. leikhlutann en hans var ekki getið meðal stigaskorara eftir fyrri hálfleikinn, m.a. var hann með 6/7 í þristum!  Coville í raun sá eini með almennilegu lífsmarki hinum megin með 25 stig en Nökkvi kominn með 13.

 

Snæfellingar komu gríðarlega ákveðnir til leiks í lokabardagann og settu fyrstu 9 punkta fjórðungsins niður og breyttu þannig stöðunni í 84-85.  Undirrituðum kom á óvart að þjálfarateymið skyldi ekki stoppa áhlaupið með leikhléi en loks kom Ari sínum mönnum á bragðið með vítaskoti.  Sama strögglið var samt á sóknarleiknum og eftir að Snæfellingar komust yfir þá loksins kom tíminn.  Eftir það var leikurinn í miklum járnum og komu inn á milli vafasamir dómar, t.d. þegar Coville skoraði og datt í kjölfarið og dæmdi Georgía, annar góðra dómara leiksins að mati undirritaðs, tæknivillu fyrir leikaraskap.  Ingi Þór ekki alveg sáttur….  Ég sat fyrir framan þetta og fannst dómurinn orka tvímælis.  En Snæfellingar voru einfaldlega sterkari á lokasprettinum og munaði þar mestu um frábæran Kana þeirra, Coville sem skoraði hvorki fleiri né færri en 37 stig, 49 framlagspunktar!.  Á móti var Kani Fsu nánast áhorfandi og skilaði ekki nema 16 stigum og aumum 9 framlagspunktum.

 

.

Tölfræðin lýgur ekki

Nei, hún gerir það aldrei enda hvernig ætti hún að fara að því?  Hins vegar spurning hvernig rýnt er í hana.  Það fyrsta sem vekur athygli mína er munurinn á frammistöðu Bandaríkjamanna eins og áður hefur komið fram.  Coville alveg frábær en Charles Jett Speelman varla meðalmaður hinum megin.  49-9 í framlagi er ansi mikill munur og þar sem Bandaríkjamennirnir skipa ansi veigamikil hlutverk og ekki síst í þessari deild, þá mun ekki koma mér á óvart að Jett fari upp í jet á næstunni og snúi ekki til baka…..  Frændurnir hjá Fsu frábærir en í sitthvorum hálfleiknum.  Hlynur hefði þurft að sjást meira í þeim seinni en þá setti hann einungis 2 stig.  Ari hins vegar on fire en mátti ekki við margnum í lokin.

 

 

Hetjan

Christopher Coville vs. Ari Gylfason.  Hetjur leiksins en það er bara ein aðal-hetja og þann titil fær Coville!  Það væri fróðlegt að fylgjast með þessum í Dominos!

 

Yfir og út!

 

Tölfræði leiks

Myndasafn (væntanlegt)

 

Umfjöllun, viðtöl / Sigurbjörn Daði Dagbjartsson

 

Viðtöl: