Reykjavíkurslagur fór fram þegar KR og Ármann mættust í DHL-höllinni á miðvikudagskvöld. Fyrirfram var þó ljóst að búast mátti við ójöfnum slag. KR er á toppi fyrstu deildar og hefur ekki tapað leik. Ármann vermir hins vegar botnsætið og án sigurs. Sú varð líka raunin. Leikurinn var reyndar jafn fyrstu mínúturnar, en upp úr miðjum fyrsta leikhluta skildi leiðir með liðunum og eftir það var leikurinn aldrei spennandi og lokatölur voru 76:40 fyrir KR.

 

Ekki hjálpaði Ármanni að aðeins sex leikmenn voru á skrá á meðan KR-ingar gátu skipt leikmönnum að vild. KR-ingar héldu greinilega aftur af sér í leiknum og ákváðu til dæmis að pressa ekki Ármenninga á eigin leikhelmingi. Þá lék erlendi leikmaður KR aðeins rúmar 13 mínútur. Tækifærið til að leyfa þeim leikmönnum KR, sem í jafnari leikjum verma bekkinn, að spreyta sig hefði þó mátt nýta betur, bæði til að gefa þeim reynslu í meistaraflokki og halda þeim við efnið.

 

Eygló Kristín Óskarsdóttir var atkvæðamest í liði KR-inga. Hún hitti úr helmingi skota sinna utan af velli og skoraði að auki úr báðum vítum sínum. Uppskeran var 16 stig. Þá tók hún átta fráköst og gaf fimm stoðsendingar. Kristbjörg Pálsdóttir var spræk í leiknum og skoraði 15 stig, tók sjö fráköst og gaf tvær stoðsendingar. Perla Jóhannsdóttir var örugg í öllum aðgerðum í bakvarðarstöðunni, skoraði 11 stig, tók átta fráköst og gaf fimm stoðsendingar. Ástrós Lena Ægisdóttir sýndi einnig fína takta, skoraði átta stig, tók sex fráköst og gaf sex stoðsendingar. Tvær þeirra voru sérlega glæsilegar og sýndu hvað hún hefur gott auga fyrir því hvar félagar hennar eru á vellinum. Jenný Lovísa Benediktsdóttir og Þorbjörg Andrea Friðriksdóttir skoruðu átta stig, Desiree Ramos fjögur, Þóra Birna Ingvarsdóttir, Emilía Bjarkar-Jónsdóttir og Gunnhildur Bára Atladóttir tvö stig.

 

Í liði Ármanns var Stefanía Ósk Ólafsdóttir, sem áður lék með Haukum, atkvæðamest. Hún lék allan leikinn og skoraði 18 stig, tæplega helming stiga liðsins. Næstar komu Arna Dís Heiðarsdóttir og María Björk Ásgeirsdóttir með átta stig hvor, Sigrún Guðný Karlsdóttir með fjögur stig og Jelena Tinna Kujundzic með tvö stig. Allir leikmenn Ármanns lögðu sig fram og eiga hrós skilið fyrir að halda dampi í ójöfnum leik.

 

Eftir leikinn við Ármann eru KR-ingar efstir í deildinni með 16 stig eftir átta leiki og eiga tvo leiki til góða á Grindvíkinga, sem eru í öðru sæti með 14 stig eftir 10 leiki. Næst kemur síðan Fjölnir með 12 stig eftir átta leiki og Þór Akureyri með 10 stig eftir jafnmarga leiki. Næsti leikur KR er við Fjölni í Grafarvoginum á sunnudag, en Ármann mætir Fjölni í Kennaraháskólanum á fullveldisdaginn.

 

Tölfræði leiksins

 

Texti: KB
Mynd: HMG