Íslenska landsliðið hóf leik í undankeppni heimsmeistarmótsins með tveimur leikjum nú í lok mánaðar. Þeim fyrri töpuðu þeir, 89-69, gegn Tékklandi ytra 24. nóvember og þeim seinni heima gegn Búlgaríu síðasta mánudag, 74-77. Ísland er því neðst í riðil sínum og það eina sem ekki náði í sigur í þessum glugga.

 

Karfan spjallaði við þjálfara liðsins, Craig Pedersen, um leikina og hvernig honum hafi þótt liðið hafa komið út í þessum fyrsta glugga keppninnar.

 

 

Þrátt fyrir að aðeins nokkrir mánuðir séu liðnir frá því að liðið tók þátt í lokamóti EuroBasket í Finnlandi, var um þó nokkuð breyttan íslenskan hóp að ræða. Bæði voru þeir Pavel Ermolinskij og Jón Arnór Stefánsson frá vegna meiðsla. Elvar Már Friðriksson komst ekki því hann leikur í bandaríska háskólaboltanum. Ægir Þór Steinarsson komst ekki vegna skuldbindinga við lið sitt á Spáni. Svipað og var með Tryggva Snær Hlinason í fyrri leiknum úti í Tékklandi, en Brynjar Þór Björnsson var einnig frá vegna veikinda í þeim leik. Þá gaf Hörður Axel Vilhjálmsson ekki kost á sér.

 

Því nokkuð nýtt lið um að ræða fyrir Ísland frá því að það spilaði síðast. Þó var aðeins einn nýliði tekinn inn í hópinn, Tómas Þórður Hilmarsson, en hinir höfðu allir leikið fyrir landsliðið áður. Um valið sagði Craig að Tómas væri stór leikmaður sem hafi sýnt það í Dominos deildinni að hann gæti skotið boltanum og þar af leiðandi hafi hann fengið tækifærið.

 

 

Mikið var rætt og ritað um þetta lokaval þjálfarans fyrir leikina tvo, en um valið sagði Craig að miðherji Grindavíkur, Sigurður Gunnar Þorsteinsson, hafi verið valinn í 12 manna hópinn, en hafi ekki viljað taka þátt. Þá segir hann einnig að hafi þeir vitað fyrr af veikindum Brynjars Þórs Björnssonar, hefðu þeir tekið annan bakvörð inn í hópinn. Varðandi val sitt á Axel Kárasyni í hópinn sagði Craig að klárt hafi verið að liðinu vantaði bæði reynslu og hæð þegar að ljóst var að Pavel yrði ekki með og þar af leiðandi hafi hann verið valinn. Einnig hafi þeir verið að leitast eftir leikmanni sem þekkti kerfi og leik liðsins og þar af leiðandi hafi hann verið besti kosturinn.

 

Um leik liðsins í leikjunum tveimur sagðist Craig ánægður með spilamennskuna á köflum, en að mótherjarnir, liðsmenn Tékklands og Búlgaríu, hafi náð að nýta sér líkamlega yfirburði sína í báðum leikjunum.

 

 

Segist Craig hafa verið ánægður með hvernig minna reyndir leikmenn hafi tekið stærra hlutverki með liðinu og að nokkrir þeirra hafi sýnt það að þeir eigi bjarta framtíð.

 

Grátlegt var hvernig liðið tapaði seinni leiknum gegn Búlgaríu á lokametrunum. Í þeim leik hafði miðherji liðsins, Tryggvi Snær Hlinason, gert vel framan af leik, en spilar svo ekkert þegar að lítið er eftir af leiknum og til loka hans. Umræðan um þá staðreynd verið mikil síðustu daga, en einhverjir hafa gert því skóna að Tryggvi hafi ekki spilað vegna þess að íslenska landsliðið hafi gert samning við félagslið hans, Valencia á Spáni, um að hann myndi aðeins leika fyrirfram ákveðinn fjölda mínútna í leiknum.

 

 

Segir Craig að engar slíkar takmarkanir hafi verið settar á Tryggva fyrir leik. Þjálfarateymið hafi einfaldlega viljað vera með hreyfanlegri leikmenn á vellinum undir lokin, leikmenn sem gætu varist við þriggja stiga línuna, sem og einn á einn. Fannst þeim þeir leikmenn sem voru inni á þessar lokamínútur hafa sýnt það úti í Tékklandi og á EuroBasket í Finnlandi að þeir gætu spilað saman og væru vanir hverjum öðrum á sóknarhelmingi vallarins.

 

Þá segir Craig að hrósið skuli fara til búlgarska liðsins, sem sett hafi niður ófá erfið skotin í fjórða leikhlutanum.

 

Næsti gluggi liðsins er 23.-25. febrúar nætkomandi, en þá mun liðið leika tvo heimaleiki. Þann fyrri gegn Finnlandi og síðan taka þeir á móti toppliði riðilsins, Tékklandi. Varðandi hvaða leikmenn Ísland muni tefla fram í þeim leikjum segir Craig það þurfa að koma í ljós hverjir séu tiltækir þegar nær dregur, en að það yrði gott þá ef að liðið gæti nýtt sér reynslu Pavels Ermolinskij og Jóns Arnórs Stefánssonar, sem báðir eru meiddir þessa stundina.