Íslenska landsliðið mun á föstudaginn leika sinn fyrsta leik í undankeppni heimsmeistaramótsins 2019 gegn heimamönnum í Tékklandi. Upphaflega tilkynntu þjálfarar liðsins 13 manna hóp sem tæki þátt í þessum fyrsta glugga keppninnar. 

 

Aðeins 11 leikmenn ferðuðust hinsvegar til Tékklands. Þar sem að leikmaður Valencia, Tryggvi Snær Hlinasson, var upptekinn í verkefni með sínu félagsliði og leikmaður KR, Brynjar Þór Björnsson var að glíma við veikindi.

 

Nú er ljóst að hvorugur leikmaður verður með á föstudaginn, en bundnar eru vonir við að þeir verði báðir með í seinni leik gluggans þann 27. næstkomandi heima í Laugardalshöllinni gegn Búlgaríu.

 

Aðspurður sagðist Brynjar upphaflega ekki hafa ferðast með liðinu sökum magakveisu sem hann hafi verið að eiga við. Þar sem hann hafi lítið æft og borðað síðustu daga var tekin sú ákvörðun að sleppa þessari ferð þannig að líkaminn gæti örugglega jafnað sig. Hann mun þá koma til móts við liðið á sunnudaginn og er vongóður um að geta hjálpað því gegn Búlgaríu á mánudaginn.