KR hefur farið ágætlega af stað í Dominos deild karla en í síðustu umferð tapaði liðið fyrir Grindavík á útivelli. Í tapinu náði fyrirliði liðsins hinsvegar merkum áfanga í sögu KR. 

 

Brynjar Þór Björnsson komst nefnilega upp fyrir Guðna Guðnason sem stigahæsti leikmaður KR í úrvalsdeild karla frá upphafi. Frá þessu greinir Vísir.is í dag. 

 

Brynjar þurfti sjö stig til að bæta metið en var með 16 stig í leiknum. Hann er einnig leikjahæsti KR-ingurinn í efstu deild og er því búinn að skrá nafn sitt nokkrum sinnum í sögubækurnar frægu. 

 

KR mætir Haukum í kvöld í DHL höllinni kl 19:15. Leikurinn er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport og verður nánar fjallað um hann á Karfan.is í kvöld.

 

Flest stig fyrir KR í úrvalsdeild karla 1978-2017:

1. Brynjar Þór Björnsson 3154
2. Guðni Ólafur Guðnason     3144
3. Hermann Hauksson     2757
4. Jón Sigurðsson         2171
5. Birgir Mikaelsson     2146
6. Jónatan James Bow     2005