Borche Ilievski, þjálfari ÍR-inga, var kampakátur í leikslok eftir sigurinn á Stjörnunni í kvöld:

 

Borche, frábær sigur hjá ykkur og það má væntanlega kalla þetta varnarsigur?

 

Algerlega, við spilum alltaf góða vörn en greina má þó mistök hjá okkur sem ættu ekki að eiga sér stað. Við hefðum getað gert betur á Addú í vagg og veltu-vörninni, hann setti skot sem hann hefði ekki átt að fá. En við fundum styrk síðustu 10-15 mínúturnar til að klára leikinn.

 

Það neikvæða í leik þinna manna var kannski helst stigadreifingin – þrír leikmenn skora öll nema 9 stig liðsins?

 

Ég tek algerlega undir það, ég prófaði mig svolítið áfram með skiptingar í leiknum og að lokum ákvað ég að skipta hratt inn á, sérstaklega þeim sem voru að skila einhverju fyrir okkur strax í byrjun. En það hafa allir sitt hlutverk í liðinu, sumir bera meiri ábyrgð sóknarlega og aðrir varnarlega og allir eiga sinn þátt í sigrinum.

 

Þú lést bresta á með 3-2 svæðisvörn á köflum í leiknum.

 

Já við prófuðum 3-2 svæðisvörn að þessu sinni, við gerðum það líka gegn Tindastóli og Njarðvík af og til. Við beittum henni svolítið meira í þessum leik. Stundum fengum við auðveldar körfur á okkur en stundum skilaði hún sínu.

 

Já, fyrstu tvær tilraunirnar með svæðisvörnina gekk ekki upp en í þriðju tilraun byrjaði hún að skila sér.

 

Já, alveg rétt, ef þú hefur trú á einhverju þá verður maður að gefa því séns og það virkaði í kvöld. 

 

Nánar má lesa um leikinn hér. 

 

Viðtal: Kári Viðarsson