Tindastóll vann auðveldan sigur á Hetti í Síkinu á Sauðárkróki í kvöld þrátt fyrir að spila án tveggja byrjunarliðsmanna, þeirra Antonio Hester og Péturs Rúnars Birgissonar en þeir glíma báðir við ökklameiðsli.  Auðveldan sigur að lokum því Hattarmenn stóðu í Stólunum í fyrri hálfleik og staðan í hálfleik var 45-44 fyrir heimamenn sem voru ekki að ná upp stemningu í sinn leik og leyfðu gestunum að pirra sig. 

 

Stólar löguðu þetta í hálfleik og fóru að spila sinn körfubolta og þegar 5 mínútur voru liðnar af þriðja leikhluta var munurinn kominn í 10 stig og Stólarnir litu ekki til baka eftir það.  Þeir skelltu í lás og Höttur skoraði ekki körfu í 9 mínútur og 9 sekúndur og þegar þeir loks komust á blað var leikurinn búinn, staðan 71-52.  Það var töluvert kapp í Hattarmönnum en þegar leið á leikinn breyttist það í mikinn pirring, ekki síst hjá þjálfara þeirra og erlendum leikmanni, Kevin Michaud.

 

Þáttaskil

Eftir tiltölulega jafnan fyrri hálfleik skelltu heimamenn hreinlega í lás og settu lok á körfuna.  Höttur skoraði ekki körfu í rúmar 9 mínútur og það er ekki líklegt til árangurs á móti efsta liði deildarinnar. 

 

Tölfræðin lýgur ekki

Stólar voru yfir í öllum tölfræðiþáttum leiksins og stálu boltanum m.a. alls 12 sinnum af gestunum auk þess að skila 21 stoðsendingu á meðan gestirnir skráðu einungis 7 slíkar.

 

Hetjan

Brandon Garrett sem kom til Tindastóls vegna meiðsla Hester átti skínandi leik í kvöld og skilaði 25 stigum og 10 fráköstum. Arnar Björnsson var einnig öflugur með 23 stig, 5 stoðsendingar og 3 stolna bolta og Caird skilaði 18 stigum.

 

Kjarninn

Tindastóll er með töluvert sterkara lið en Höttur og þeir sýndu það í seinni hálfleik í kvöld með frábærum varnarleik og öguðum sóknarleik. Höttur á í vandræðum og það er áberandi að andinn í liðinu er ekki góður þegar á reynir og það á bæði við um leikmenn og þjálfara.

 

Mynd: Arnar Björnsson var góður í kvöld

 

Tölfræði leiks

 

Umfjöllun, myndir / Hjalti Árna