Þór 71 – ÍR 89

 

Þór átti hreint út sagt afleitan dag þegar þeir tóku á móti ÍR í 8. Umferð Domino´s deildar karla í körfubolta, þegar upp var staðið skildu 18 stig liðin að. 

 

Leikurinn fór rólega af stað en það voru gestirnir sem opnuðu reikninginn með þriggja stiga skoti á fyrstu mínútu og það var ekki fyrr en eftir tveggja mínútna leik sem Þór skoraði sín fyrstu stig 2-3.  Skömmu síðar kom Ingvi Rafn Þór yfir 5-3 með góðum þristi og var það í eins sinn í leiknum sem Þór leiddi. Við tók afleitur kafli Þórs þar sem hvorki gekk né rak á meðan gestirnir settu niður hverja körfuna á fætur annarri og breyttu stöðunni í 9-19. Áfram hélt basl hjá Þór og þegar 7:41 var liðin af fyrsta leikhluta var staðan orðin 10-23. Fór svo að ÍR vann leikhlutann 15-23.

 

Þórsarar byrjuðu annan leikhlutann vel og eftir snarpan kafla tókst þeim að minnka muninn í eitt stig 22-23. Héldu nú margir að liðið væri dottið í gírinn. En annað átti eftir að koma á daginn því nú fór í hönd afleitur kafli Þórs þar sem ekkert datt með þeim á sama tíma og gestirnir tóku flugið með hverri körfunni. Um miðjan leikhlutann var forskot gestanna komið í 15 stig 22-37. Fór svo að Þór skoraði aðeins 13 stig gegn 23 gestanna sem leiddu í hálfleik með 18 stigum 28-46.

 

Í þriðja leikhluta breikkaði bilið milli liðanna enn meir og um tíma hafði ÍR 33 stiga forskot 40-73. Þórsliðið átti engin svör við leik gestanna sem þó voru ekki að brillera heldur má segja að ólánið hafi elt Þór nánast frá fyrstu mínútu. Sóknarlega var þriðji leikhlutinn skömminni skárri en fyrsti og annar en varnarleikurinn að sama skapi ekki góður. ÍR vann leikhlutann 18-29. 

 

Þegar fjórði og síðasti leikhlutinn hófst hafði ÍR 29 stiga forskot 46-75 og engar líkur á að hægt væri að vinna þann mun upp. ÍR hvíldi að mestu erlendu leikmennina þá Danero og Ryan og hjá Þór gaf Hjalti yngri leikmönnunum meira rými. Um tíma var t.a.m. þrír leikmenn á fyrsta ári drengjaflokks inná þ.e. Júlíus Orri, Baldur Örn og Ragnar Ágústsson og nýttu þeir sinn tíma afar vel. Þá fengu þeir Atli Guðjónsson, Svavar Sigurðar og Einar Ómar og þeir komu inn með ferska vinda og létu til sín taka. Þór vann loka fjórðunginn 25-14 og lögðu stöðuna til muna en 18 stiga tap staðreynd. Lokatölurnar 71-89.

 

Leikmenn Þórs vilja án efa gleyma þessum leik hið snarasta enda fátt sem gekk upp hjá liðinu. Skotnýtingin afleit og langur vegur frá að teljast viðundandi. Allir lykilmenn liðsins voru langt frá sínu besta og það vita þeir blessaðir og þeirra að koma til baka í næsta leik ferskari sem aldrei fyrr.

 

En ungu leikmennirnir sem nefndir voru hér að ofan geta verið stoltir af sýnu framlagi. 

 

Stigahæstu leikmenn Þórs voru þeir Júlíus Orri Ágústsson og Marques Oliver með 13 stig. Júlíus var auk þess með 5 fráköst og 6 stoðsendingar og Marques með 16 fráköst. Ragnar Ágústsson var með 12 stig og þeir Pálmi Geir og Einar Ómar með 9 stig hvor og Svavar Sigurðarson 4. Þá voru þeir Baldur Örn og Bjarni Rúnar með 2 stig hvor og Sindri Davíðsson 1 stig.

 

Hjá ÍR var Ryan Taylor stigahæstur með 19 stig og 7 fráköst, Danero Thomas 18 stig, Sæþór Elmar Kristjánsson 15 stig, Kristinn Marinósson 13, Matthías Orri og Sveinbjörn Claessen 7 stig hvor, þá voru þeir Hákon Örn og Trausti Eiríksson með 4 stig hvor og Sigurkarl Róbert með 2 stig. 

 

Tölfræði leiks 

 

Staðan í deildinni er sú að Þór er sem fyrr í 10. Sætinu með 4 stig en Tindastóll er á toppi deildarinnar með 14 stig.

 

Mynd með frétt: Þórsarinn Svavar Sigurðarson og ÍR ingurinn Matthías Orri Sigurðarsson kljást undir körfunni

Umfjöllun: Palli Jóh – Thorsport.is