Tindastóll komst áfram í 8. liða úrslit Maltbikarsins með sigri á Val í kvöld. Sauðkrækingar voru mun sterkari aðilinn í leiknum og unnu ansi öruggan sigur að lokum. Umfjöllun um helstu þætti leiksins hér að neðan:

 

Gangur leiksins: 

 

Leikurinn var mjög hraður strax í byrjun og Tindastóll tók fljótt forystuna. Vörn Tindastóls á hálfum velli var mjög sterk en flest stig Vals voru úr hraðaupphlaupum. Valsarar þurftu að hafa mun meira fyrir öllum sínum stigum heldur en Sauðkrækingar sem spiluðu frábæra vörn. Þeir Arnar Björnsson og Anthonio Hester fóru fyrir liði Tindastóls og voru komnir með sitthvort 17 stigin í hálfleik. Staðan í hálfleik 34-46 fyrir Tindastól en heimamenn náðu góðu áhlaupi í lok hálfleiksins til að laga stöðuna aðeins. 

 

Tindastóll byrjaði seinni hálfleikinn á 11-0 áhlaupi, barnum lokað og ljósin kveikt. Þar með var hola Valsmanna orðin of djúp til að moka sig uppúr henni. Helgi Rafn var frábær á báðum endum vallarins í þriðja leikhluta fyrir Tindastól. Valsarar reyndu ýmislegt til að snúa við blaðinu og áttu nokkur áhlaup en ekkert nægilega sterkt til að breyta leiknum. Að lokum voru það Skagfirðingar í Tindastól sem unnu 104-70 sigur í leiknum og er komið í 8. liða úrslit Maltbikarsins. 

 

 

Tölfræði leiksins: 

 

Skotnýting Tindastóls var svakaleg. Liðið tók 24 þriggja stiga skot og hittu úr helmingnum eða 12. Valsarar voru með 24% nýtingu í 25 þriggja stiga skotum. Gesturnir voru með 21 stig úr hraðaupphlaupum sem urði til eftir frábæra vörn liðsins en Valur einungis 10. 

 

Hetjan: 

 

Sigtryggur Arnar Björnsson og Anthonio Hester voru lang bestu menn vallarins í kvöld. Arnar var með 35 stig, 3 fráköst, 3 stoðsendingar, 4 stolna bolta auk þess að hitta sex af níu þriggja stiga skotum sínum. Hester var með 31 stig, 7 fráköst og hitti vel undir körfunni. Hjá Val var Urald King sterkur með 17 stig og Gunnar Ingi með 16 stigen fleiri náðu sér ekki á strik sóknarlega. 

 

Kjarninn: 

 

Tindastóll er komið í 8 liða úrslit Maltbikarsins en liðið hefur ekki komist svo langt síðustu tvö ár. Varnarleikur liðsins var ógnarstekur, liðið þétti teiginn vel og hleypti Val í þriggja stiga skot sem duttu ekki í kvöld. Valsmenn urðu undir á öllum stigum leiksins í dag, hvort sem það var tæknilegs eðlis eða baráttu og ákefð leiksins. Austin Bracey var lítið með í dag vegna smávægilegra meiðsla og við það var hoggið stórt skarð í sóknarleiknum sem liðinu tókst engan vegin að fylla uppí. 

 

Tindastóll virðist vera að finna taktinn betur og eru til alls líklegir þessa stundina. Ef baráttan og ákefðin helst uppi þá eru fá lið sem standast þeim snúninginn. 

 

Tölfræði leiksins

 

Myndasafn (Bára Dröfn)

 

Viðtöl eftir leik.

 

 

 

Umfjöllun og viðtöl / Ólafur Þór Jónsson 

 

Myndir / Bára Dröfn