Skallagrímur vann góðan útisigur á Gnúpverjum í 1. deild karla í gærkvöldi. Skallagrímur leiddi allan leikinn en Gnúpverjar náðu að minnka muninn hressilega í þriðja leikhluta með frábærri baráttu. Skallagrímur vann þó á endanum 96-110 sigur en nánar má lesa um leikinn hér. 

 

Nokkur hiti var kominn í leikinn í þriðja leikhluta en dómarar leiksins flautuðu mikið en leikurinn var harður. Leikurinn fór fram í íþróttahúsinu Kórnum í Kópavogi. Hluti salarins sem leikurinn fór fram á er ekki stór og því nándin mikil milli leikmanna og stuðningsmanna. Gróflega áætlað eru 2-3 metrar frá áhorfendasætunum og inná völlinn og því heyrist allt þar á milli. 

 

Einum stuðningsmanni Gnúpverja þótti ekki mikið koma til dómgæslu leiksins og tók uppá því að mótmæla ansi hraustlega. Hann fór alveg að hliðarlínu og lét dómara leiksins heyra það er hann fór framhjá. Eftir nokkur fúkyrði fékk Guðmundur Ragnar Björnsson dómari leiksins algjörlega nóg og ákvað að reka stuðningsmanninn úr húsi. Aðstoðarþjálfari Gnúpverja þurfti að aðstoða við að sannfæra áhorfandann um að yfirgefa salinn. Áður en til þess kom vatt áhorfandinn sér að dómaranum og átti við hann nokkur lokaorð á borð við að dómgæslan hafi verið „lélegasta sem hann hafði séð“. 

 

Óhætt er að segja að atvik sem þetta sé ansi sjaldgæft og man undirritaður ekki eftir slíku. Samkvæmt reglugerð KKÍ ætti félagið hljóta áminningu vegna atviksins og/eða gera ábendingar til að tryggja meira öryggi dómara og aðila. Hægt er að grípa til heimaleikjabanna eða sekt séu atvikin alvarleg eða endurtekin sem á væntanlega ekki við í þessu atviki. 

 

Ljósmyndari Karfan.is náði nokkrum myndum af atvikinu sem má finna hér að neðan: