Framherjinn Ágúst Angantýsson hefur samið við lið Vestra um að leika með liðinu á komandi tímabili. Frá þessu er greint á síðu Vestra í kvöld. 

 

Ágúst hefur leikið með Stjörnunni síðustu þrjú tímabil en sögusagnir sögðu að skórnir góðu væru komnir uppá hillu. Hann hefur nú tekið þá þaðan aftur og mun leika í 1. deildinni á komandi tímabili. 

 

Ágúst lék einnig á Ísafirði tímabilið 2013-2014 þá undir nafni KFÍ. Hann var með 3,9 stig og 3 fráköst með Stjörnunni á síðasta tímabili. 

 

Þetta eru enn ein tíðindi á þessum fjöruga Gluggadegi sem hefur heldur betur komið með óvænt tíðindi.