Íslenska landsliðið er nú komið til Pardubice í Tékklandi þar sem það mun æfa næstu daga áður en það mætir heimamönnum í fyrsta leik sínum í undakeppni heimsmeistaramótsins á föstudaginn. Leikurinn sá fyrri í þessum glugga, en í þeim seinni munu þeir etja kappi við Búlgaríu heima í Laugardalshöll þann 27. næstkomandi.

 

Á sunnudaginn tilkynntu þjálfarar 13 manna hóp liðsins fyrir leikina tvo, en samkvæmt nýjustu fregnum getur allt eins verið að leikmennirnir verði bara 11 í þessum fyrsta leik. Þar sem að leikmaður Valencia, Tryggvi Snær Hlinason, mun ekki koma til móts við hópinn og þá ferðaðist leikmaður KR, Brynjar Þór Björnsson, ekki með liðinu í gær sökum veikinda.

 

Ekki er fyrir það skotið að Brynjar geti tekið þátt í leik föstudagsins, en víst þykir að Tryggvi verði ekki þar. 

 

Binda þjálfarar liðsins vonir við að þeir verði báðir með liðinu í seinni leiknum gegn Búlgaríu.