ÍR-ingar mættu í Ásgarð í kvöld í fimmtu umferð Dominos-deildarinnar. Breiðhyltingar hafa farið afar vel af stað, þeirra eina tap hingað til kom gegn KR í Vesturbænum. Stjörnumenn sigruðu aftur á móti KR-inga í eina heimaleik sínum til þessa en töpuðu á útivelli bæði gegn Njarðvík og Þór Þ.

 

Spádómskúlan: Hún á augljóslega erfitt með þennan leik og sér ekki skýrt. Þó má greina 79-72 sigur heimamanna í annars mjög jöfnum leik.

 

Þáttaskil

Það fór lítið fyrir glæstum sóknarleik hjá liðunum í fyrri hálfleik. Það kom að vísu ekki mjög á óvart enda treysta bæði lið á öfluga vörn frekar en einhvern hlaupa-skjóta-leik. Einstaklingsframtök hjá Matta og Ryan áttu mestan heiðurinn að 5-15 forystu gestanna í byrjun en hertari vörn heimamanna jafnaði leikinn í 19-20 fyrir annan leikhluta.  Sami gangur var í öðrum leikhluta, liðin litu bara vel út á varnarhelmingnum. Stjörnumenn tóku þó smá rispu síðustu mínúturnar og fóru með 36-29 forskot inn í hálfleikinn.

 

Heimamenn byrjuðu síðari hálfleikinn eilítið betur og komu sér í 49-40 þegar um 4 mínútur voru eftir af þriðja leikhluta. En nú voru það gestirnir sem hertu vörnina, smelltu í svæðisvörn, unnu nokkra bolta og minnkuðu muninn í 53-50 fyrir lokafjórðunginn. Hann var vægast sagt æsispennandi og jafnt á öllum tölum. Danero og Matti drógu vagninn fyrir ÍR-inga en Pryor var frábær Stjörnumegin. Stigaskorið var þó áfram í lágmarki og barátta góðra varna í algleymingi. Þegar rétt rúm mínúta var eftir fengu áhorfendur skemmtun fyrir allan peninginn. Mikill darraðardans og bæði lið söm við sig, klaufar sóknarmegin en eitilhörð varnarmegin. Svo fór að framlengja þurfti leikinn eftir 66-66 jafna stöðu að loknum venjulegum leiktíma.

 

Pryor setti fyrstu sig framlengingarinnar en hver annar en Svenni Klassi svaraði með þristi – mjög kærkomnum þar sem stigaskorið var ekki beint að dreifast mikið hjá gestunum. Eitthvað hlaut þó að gefa undan og það er kannski dæmigert fyrir leikinn að hann réðst á vítalínunni. Ryan kom sér ítrekað á vítalínuna síðustu tvær mínúturnar eða svo og nýtti sín skot vel. Í stöðunni 72-75 og 21 sekúnda eftir reyndu heimamenn að spila þann þekkta leik að brjóta og koma sér í möguleika en allt kom fyrir ekki og ÍR-ingar lönduðu sannkölluðum varnarsigri, 75-80 að lokum.

 

Tölfræðin lýgur ekki

Varnarleikur er kannski sá þáttur sem tölfræðin mælir ekki beinlínis. Benda má á að skotnýting beggja liða var ekki góð í takt við öflugar varnir.

 

Bestu leikmenn

Ryan var án vafa bestur í þessum leik, skoraði 28 stig og tók 13 fráköst. Hann tók af skarið í lokin og kom sér með harðfylgi ítrekað á vítalínuna.

 

Hjá Stjörnumönnum var Pryor atkvæðamestur með 24 stig og 12 fráköst og gerði vel þegar mest á reyndi þó það hafi ekki dugað til sigurs.

 

 

Kjarninn

Spennandi leikir eru alltaf skemmtilegir! Áhugamenn um körfubolta hafa gaman af flottum sóknartilburðum en allir myndu taka spennandi leik fram yfir þá.

 

Það þarf engan snilling til að sjá að sóknarleikurinn er umhugsunarefni þjálfaranna næstu daga. Ef hann smellur hjá þessum grjóthörðu varnarliðum ætti framhaldið að vera bjart.

 

Athygliverðir punktar:

  • Ryan, Danero og Matti höfðu skorað öll nema fjögur stig gestanna þegar fjórar mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma.
  • Varnarsigur í íþróttum er betri en varnarsigur í pólitík því ÍR-ingar hirtu 100% af þeim stigum sem í boði voru.
  • Ghettó-arnir mættu fjölmargir og lífguðu upp á stemmninguna. Þeir eiga sinn hlut í sigrinum. Þeir mættu þó aðeins gæta að því hvert þeir beina spjótum sínum – það er ómerkilegt að kalla ókvæðisorð að ritaraborðinu.
  • Spádómskúlan var bara nokkrum stigum frá þessu! Reyndar veðjaði hún á rangan hest og sá ekki framlenginguna fyrir en það má pússa hana aðeins fyrir næsta leik.

 

 

Tölfræði leiks

Myndasafn

 

 

Umfjöllun / Kári Viðarsson 

Myndir / Bára Dröfn