Vestri tók á móti andlausu liði FSU ? Jakanum í kvöld í 1. deildinni. Vestra menn voru fyrir leikinn búnir að sigra tvo leiki og tapa einum en lið FSU höfðu tapað naumlega öllum þrem leikjum sínum.

 

Þáttaskil:

 

Í raun voru enginn þáttaskil í leiknum. Vestra menn spiluðu hörku vörn og byrjuðu leikinn mun betur og leikmenn FSU sáu nánast aldrei til sólar. Það leit þó út fyrir að FSU ætluðu að gera tilraun til að komast inn í leikinn í öðrum leikhluta. Eftir leikhlé á 13 mínútu komu þeir mun grimmari til leiks og minnkuðu aðeins muninn en vestra menn snéru leiknum sér í hag strax aftur í þriðja leikhluta.

 

Tölfræðin lýgur ekki:

 

Byrjunarlið FSU skilaði 43 stigum í leiknum en það er auðvitað aldrei nóg til að vinna leik. Heimamenn spiluðu góða vörn tóku bæði fleiri sóknar og varnarfráköst. Þrátt fyrir að Vestri sé skráð með 46 fráköst gegn 38 hjá FSU, þá ber að geta þess að síðustu mínúturnar þegar leikurinn var unninn spiluðu heimamenn með lágvaxið lið þar sem gestirnir náðu sér í nokkur fráköst og tölfræðin lagaðist aðeins.

 

Hetjan:

 

Yngvi Páll Gunnlaugsson þjálfari Vestra teiknaði leikinn rétt upp. Las breyttingar FSU og brást við því sem Eloy Doce þjálfari FSU reyndi til að komast aftur inn í leikinn. Fyrst og fremst er um liðsigur að ræða og byrjunarlið Vestra átti allt mjög góðan leik. Björn Ásgeir Ásgeirsson átti frábæran leik, skoraði 15 stig og spilaði hörku vörn. Maður leiksins er þó afmælisbarnið Nemanja Knezevic sem skilaði 29 stigum, 19 fráköstum og 5 stoðsendingum. 45 framlagspunktar í hús hjá honum.

 

Kjarninn:

 

Góð varnarvinna skóp þenna sigur fyrir heimamenn sem eru á blússandi siglingu í 1. deildinni. Andlaust lið FSU á að gera miklu betur en þetta. Þeir geta þó huggað sig við það að tímabilið er rétt að byrja og þeir geta því enn girt sig í brók og sýnt okkur hvers þeir eru megnugir.

 
Umfjöllun / Þormóður Logi Björnsson