Íslands-og bikarmeistarar Keflavíkur tóku á móti Valsstúlkum í TM-höllinni við Sunnubraut í 2. umferð Dominos deildar kvenna fyrr í dag. Bæði lið unnu fyrsta leik sinn í Íslandsmótinu sannfærandi og voru vonir bundnar við spennandi leik sem varð raunin.

 

Valskonur lögðu línur snemma leiks með mikilli baráttu sem skilaði mörgum unnum boltum. Brittanny Dinkins, erlendur leikmaður Keflavíkur, átti í stökustu erfiðleikum með að halda boltanum innan liðsins í 1. leikhluta en Valskonur leiddu 24 – 30 að honum loknum. Keflvíkingar sigu svo frammúr í lok 2. leikhluta og leiddu í hálfleik með 4 stigum, 47-43. Heimakonur voru svo skrefinu á undan allt fram í 4. leikhluta en þá náðu Valsarar góðu áhlaupi, þéttu vörnina þegar mest á reyndi og reyndist það nóg til að skila tveimur stigum í hús. Lokatölur 85 – 93 fyrir gestina.

 

Þáttaskil:

 

Það var boðið upp á sóknarbolta í kvöld. Eftir jafnan og spennandi leik þar sem liðin skiptust á að taka áhlaup hvort á annað tóku Valskonur forystuna 75-77 þegar 6 mínútur voru eftir og létu hana ekki aftur af hendi. Eftir leikhlé Keflavíkur skoruðu Valskonur næstu 6 stig og náðu muninum þar með upp í 8 stig og þann mun náðu meistararnir ekki að brúa. Sóknarleikur heimakvenna var afar stirðbusalegur og úr karakter þegar mest á reyndi og vantaði allt frumkvæði frá helstu sóknarvopnum. Valskonur sýndu mikinn styrk í því að loka fyrir auðveld færi, spiluðu ágætan varnarleik og léku svo skynsaman sóknarleik hinum megin á vellinum sem landaði gríðarlega sterkum sigri á erfiðum útivelli.

 

Tölfræðin lýgur ekki:

 

Það sem vekur athygli er að heimakonur fara aðeins 6 sinnum á vítalínuna í öllum leiknum á meðan Valskonur heimsækja vítabæ 25 sinnum. Valskonur fá dæmda á sig eina villu í öllum síðari hálfleiknum sem er álíka sjaldséð og að þurfa ekki að bíða í bensínröðinni í Costco. Það er þó ekki þar með sagt að áberandi hafi hallað á annað liðið í dómgæslu í dag eða að mikið hafi verið um vafaatriði, en leikurinn var heilt yfir vel dæmdur mati undirritaðs. Keflvíkingar voru bara of "soft" í sínum aðgerðum og skorti einbeitingu. Valur skorar 8 stigum meira en Keflavík eftir að hafa fengið annað tækifæri í sömu sókninni og þar liggur hundurinn grafinn.

 

Hetjan:

 

Elín Sóley Hrafnkelsdóttir átti sinn besta leik í meistaraflokki í kvöld. Stelpan átti frábæran leik og var að öðrum ólöstuðum taktfast hjarta gestanna. Elín lauk leik með 27 stig, 12 fráköst (þar af 8 sóknarfráköst), 5 stoðsendingar, 2 varða bolta og 2 stolna. Ofan á það spilaði hún ágætis liðsvörn, setti upp aragrúa af góðum hindrunum fyrir liðsfélaga sína og var ofan á allt áræðin í sínum aðgerðum og í góðu flæði allan leikinn. Alexandra Petersen átti einnig skínandi fínan leik með 31 stig, 9 fráköst,  4 stoðsendingar og 5 stolna bolta. 

 

Kjarninn:

 

Valskonur mættu í Keflavík til að spila körfubolta og heimakonur virtust hreinlega ekki tilbúnar að taka slaginn. Gestirnir báru enga virðingu fyrir því að Keflavík er handhafi beggja stóru titlana og hreinlega "out-höstluðu" heimakonur. Keflavík náði aldrei að komast almennilega í sinn leik, fyrir utan stutta kafla í 2. og 3. leikhluta. Varnarleikur liðsins var ekki svipur hjá sjón lungan úr leiknum og allar sóknaraðgerðir voru stífar, þá sér í lagi í 4. leikhluta. Brittanny Dinkins  skoraði ekki stig í síðasta leikhlutanum sem er ekki ásættanlegt fyrir burðarás liðsins. Birna Benónýsdóttir og Salbjörg Sævarsdóttir áttu í miklum erfiðleikum með Elínu Sóleyju í frákastabaráttunni og í teignum almennt og til að toppa daginn varð Birna að yfirgefa völlinn þegar um 5 mínútur voru eftir þegar hún sleit skóreim, sem reyndist of flókið verkefni fyrir sjúkrateymi liðsins að meðhöndla. Heilt yfir voru Keflvíkingar undir í framlagi og ákefð og var Sverrir Þór allt annað en sáttur með það sem hann fékk frá sínum stelpum í kvöld. Það segir þó mikið um styrk liðsins að vera inni í leiknum allt til enda þrátt fyrir að eiga heilt yfir nokkuð dapran leik.

 

Valskonur virðast vera með mjög sterkt lið, öflugan erlendan leikmann, vel skipulagðar og vinna hver fyrir aðra. Það er gott jafnvægi á leik liðsins inni í teig og fyrir utan og ljóst er að öll lið verða að vera að mæta tilbúin í átök þegar Valur er andstæðingurinn. Valskonur voru betra liðið í Keflavík og dag og áttu sigurinn fyllilega skilið.

 

Tölfræði leiksins

 

Myndasafn (Skúli B. Sigurðsson)

 

Umfjöllun: Sigurður Friðrik Gunnarsson