Sannkölluð barátta um Breiðholtið var háð um helgina í Hertz-hellinum milli liðanna ÍB (Íþróttafélag Breiðholts) og Leiknis (stofnað í Breiðholti 1973). Leikurinn var ekki jafn framan af en lauk með æsispennandi kafla þar sem tvísýnt var hvort liðið ynni. Leiknismenn náðu í stöðunni 78-78 að skora 5 stig í röð og leiknum lauk með sigri gestanna; 78-83. 
 

Frá fyrstu mínútu höfðu Leiknismenn yfirtökin og náðu strax forystunni og héldu henni. ÍB-menn gátu ekki haldið sér úr villuvandræðum og gestirnir komust fljótt í bónus og voru duglegir að nýta vítaskotin í fyrri hálfleik. Þeir völtuðu hreinlega yfir heimamenn í fyrsta leikhluta (11-29 stigaskor) og þó að ÍB næði að taka aðeins við sér í öðrum fjórðungnum (25-23) var staðan samt sem áður 36-52 fyrir Leikni í hálfleik.

Eins og vill oft gerast þegar lið hafa svona mikla forystu í hálfleik þá mættu Leiknismenn heldur afslappaðir í þriðja leikhluta og ÍB gekk strax á lagið. Loks þegar Leiknir tók við sér var staðan orðin jöfn og þeir gátu aðeins breikkað bilið í 2 stig þegar komið var að lokafjórðungnum, staðan 58-60 (22-8 stigaskor í þriðja).

Lokafjórðungurinn var æsispennandi og ÍB var alltaf að bíta í hælana á Leikni þó þeir næðu aldrei að komast fram úr þeim. Leiknismenn gáfu þeim þó næg tækifæri til þess og brenndu af 9 vítum af 15 teknum á seinustu tíu mínútum leiksins. Á lokamínútum leiksins, eftir að gestirnir höfðu misnotað 6 af 7 vítum, náðu ÍB-menn að jafna stöðuna í 78-78 með tveimur svellköldum vítum frá Ísaki Wíum. Þá tók Gunnar Arnar Gunnarsson sig til og setti stærsta þrist leiksins, en hann kom Leiknismönnum yfir með tæpar 24 sekúndur eftir á leikklukkunni. ÍB gat ekki skorað á seinustu sekúndum leiksins og braut að lokum á Einari Bjarna Einarssyni, sem setti niður vítin sín og tryggði Leikni sigurinn. Lokastaða 78-83 fyrir Leiknismönnum.
 

Þáttaskil

Það má kannski tala um tvö þáttaskil í leiknum, en bæði urðu þegar ÍB náði að jafna stöðuna. Í fyrra skiptið jöfnuðu þeir í þriðja leikhluta, en þeir höfðu þá átt 18-2 áhlaup á fyrstu 8 mínútum fjórðungsins. Leiknismenn náðu þá loks að koma sér aftur í gang og skoruðu 6 stig gegn 4 stigum til að slútta leikhlutanum. Í seinna skiptið jöfnuðu þeir með tæpa mínútu eftir af leiknum. Aftur tóku Leiknismenn við sér og luku leiknum með mikilvægari körfu sem gerði út af við leikinn.
 

Hetjan

Þrátt fyrir að hafa ekki verið stigahæstur í sínu liði og að hafa lent í villuvandræðum snemma í leiknum þá getur enginn annar en Gunnar Arnar Gunnarsson hreppt titilinn hetja leiksins. Gunnar skoraði úr einu víti á fyrstu mínútum leiksins en skoraði hin 6 stigin sín í lokafjórðungnum úr tveimur þriggja stiga skotum og skaut óhræddur skotinu sem að gerði út af við leikinn.
 

Tölfræðin lýgur ekki

Það sem sneri leiknum er eflaust reynsla og yfirvegun Leiknismanna, en þeir komu sér ekki í mikil villuvandræði (fyrir utan einstakar hetjur) ólíkt ÍB-mönnum, en fjórir af leikmönnum þeirra yfirgáfu leikinn með 5 villur, þ.a. þrír menn úr byrjunarliðinu. Þessi mikli munur í villum (31 villur hjá ÍB á móti 20 villum Leiknis) skilaði sér líka í þó nokkrum vítaskotum hjá gestunum. Vítanýting ÍB var aftur á móti margfalt betri en hjá Leikni, en heimamenn skutu 76.5% (13 af 17) frá vítalínunni gegn 58.5% (24 af 41) hjá gestunum. Það dugði þó ekki til sigurs þar sem Leiknir tók 41 vítaskot í leiknum á meðan að ÍB tók aðeins 17 slík. ÍB hefði getað hitt úr öllum vítum sínum í leiknum og samt tapað.
 

Kjarninn

Leiknir áttu þessa fyrstu viðureign milli Breiðholtsliðanna og eru núna með 50% sigurhlutfall eftir tvo leiki. ÍB-menn eru aftur á móti enn að leita eftir fyrsta sigrinum sínum og verða augljóslega að passa betur upp á villurnar sínar í næstu leikjum sínum.

Stigaskor leikmanna:

ÍB: Otso Lakkkonen 21 stig, Ísak Máni Wíum 17 stig, Skúli Kristjánsson 13 stig, Óskar Smárason 12 stig, Ingi Pétursson 9 stig, Jón Orri Kristinsson 6 stig.

Leiknir: Einar Bjarni Einarsson 22 stig, Kristinn Loftur Einarsson 14 stig, Helgi Ingason 13 stig, Dzemal Licina 10 stig, Gunnar Arnar Gunnarsson 7 stig, Kjartan Ragnars 7 stig, Helgi Hrafn Ólafsson 4 stig, Ingvi Guðmundsson 3 stig, Sigurður Jakobsson 3 stig.