Örfáum dögum áður en Dominos deildirnar hefjast hélt kknd Njarðvíkur kynningarkvöld þar sem bæði lið voru kynnt með veglegum hætti og stuðningsmenn liðsins fengu smjörþefinn af komandi tímabili. 

 

Nokkrir hlutir voru boðnir upp á kvöldinu tengdir Njarðvík þar sem einstaklingar eða fyrirtæki fengu tækifæri til þess að styrkja liðin veglega en um leið eignast merkilega hluti úr sögu körfuboltans í Njarðvík. 

 

Meðal þess sem boðið var upp var landsliðstreyja Loga Gunnarssonar frá Eurobasket 2017. Logi sem er leikjahæsti leikmaður núverandi landsliðs og fjórði leikjahæsti leikmaður Íslands frá upphafi lék alla leiki liðsins á mótinu, meðal annars gegn evrópumeisturum Slóveníu. 

 

Treyja Loga fór á hálfa milljón króna á kvöldinu og segir á heimasíðu Njarðvíkur að mikil ánægja sé með kvöldið og upphæðina sem fékkst fyrir treyjuna.

 

Njarðvík hefur leik á miðvikudagskvöld er liðið fær Skallagrím í heimsókn í Dominos deild kvenna. Í Dominos deild karla heimsækir Njarðvík, Íslands- og bikarmeistara KR á fimmtudag í fyrstu umferð mótsins.