Valur leiddi með 3 stigum, 28-31, eftir fyrsta leikhluta þar sem bæði lið voru að hitta vel fyrir utan þriggja stiga línuna. Nýliðarnir voru svo slegnir kaldir með grútskítugri og blautri tusku heimamanna í öðrum leikhlutanum þar sem Keflvíkingar fóru hreinlega á kostum og skrúfuðu muninn upp í 25 stig fyrir hálfleik eftir flautukörfu Daða Lárs frá eigin vítalínu við mikinn fögnuð viðstaddra. Eftirleikurinn var í raun bara formsatriði en Valsmenn náðu aldrei að klóra niður muninn eða búa til stemmningu innan sinna herbúða og fór svo að lokum að Keflvíkingar unnu þægilegan og verðskuldaðan sigur, 117-86. 

 

Þáttaskil:

 

Ekki flókið dæmi. 2. leikhluti eins og hann leggur sig varð banabiti þeirra rauðklæddu í kvöld. Valsmenn voru ennþá í skýjaborgum að gefa háar fimmur eftir ágætis 1. leikhluta þegar veruleikinn bankaði á dyrnar, íklæddur hvítu og bláu með Domino´s pizzu í hendinni. Keflvíkingar buðu uppá liðsbolta í anda kvennaliðs félagsins og var leikgleðin í fyrirrúmi þar sem allir sem snertu boltann voru líklegir til að setja þrist eða brjóta sér leið að körfunni. Valsmenn voru sem steinrunnir allan leikhlutann og brotnuðu niður eins og jarðvegur í jökulhlaupi. Cameron Forte var þungamiðja aðgerða hjá Keflavík, skorandi, takandi fráköst og ekki síst símatandi félaga sína sem þökkuðu traustið með góðri skotnýtingu.

 

Tölfræðin lýgur ekki:

 

Munurinn á skotnýtingu liðanna er í raun allt sem segja þarf. Valsmenn með 38% á meðan Keflvíkingar voru í 55% og samt að líða fyrir að misnota mörg skot í "rusltíma". 18 af 35 þriggja stiga skotum Keflvíkinga sungu í netinu í kvöld sem gerir 51%. Það er erfitt að eiga við Keflavík í þannig ham. Þrátt fyrir að vinna frákastabaráttuna með 8 fráköstum náðu Valsmenn ekki að nýta sér það í kvöld. 

 

Hetjan:

 

Liðsheild Keflavíkur var mjög flott í kvöld og gaf hver einasti maður sem steig á völlinn sig allan í verkefnið og skein baráttan úr hverju andliti. Það verður samt að gefa þennan heiður til Cameron Forte sem átti ansi fínt frumsýningarkvöld í Sláturhúsinu, 25 stig, 10 fráköst og 7 stoðsendingar. Forte þessi er með góða sýn á völlinn og fljótur að finna opna manninn sem vætir munnvik þeirra sem standa fyrir utan línuna góðu. Hjá Valsmönnum var Urald King atkvæðamestur með 18 stig, 20 fráköst og 6 stoðsendingar.

 

Kjarninn:

 

Skyldusigur hjá talsvert breyttu Keflavíkurliði gegn nýliðunum frá Hlíðarenda. Mikilvægt fyrir lærisveina Friðriks Inga að byrja vel og ná upp stemmningu í hóp sem hefur verið saman í mjög stuttan tíma. Ný andlit komust vel frá sínu og má þar nefna frábærar innkomur hjá Hilmi Péturssyni og Ragnari Bragasyni í fyrri hálfleik. Leikstíll liðsins í kvöld var fljótandi og óeigingjarn en að sama skapi má setja stórt spurningamerki við varnarleik Valsmanna á löngum köflum. Ljóst er að nýliðarnir munu eiga erfitt uppdráttar í vetur ætli þeir sér að leggjast á bakið og láta keyra yfir sig við fyrsta mótlæti líkt og þeir buðu uppá í kvöld. 

 

Tölfræði leiksins

 

Myndasafn 

 

Umfjöllun / Sigurður Friðrik Gunnarsson

Myndir / Skúli B. Sigurðsson