Haukur Helgi Pálsson og félagar í Cholet í frönsku úrvalsdeildinni fara brösuglega af stað en Cholet tapaði á laugardag sínum þriðja deildarleik í röð og er á botni deildarinnar án stiga ásamt Chalon sem einnig hefur tapað þremur fyrstu leikjunum sínum.

Cholet mætti Asvel á útivelli og mátti þola 77-59 ósigur. Haukur Helgi kom inn af bekknum og lék í 21 mínútu en tókst ekki að skora. Hann var þó með 2 fráköst og 2 stoðsendingar en stigahæstir voru þeir David Michineau og Jonathan Rousselle báðir með 13 stig fyrir Cholet.

Martin Hermannsson verður svo á ferðinni á morgun með Chalons-Reims þegar liðið leikur sinn þriðja leik í deildinni gegn Strasbourg en liðin hafa bæði leikið tvo leiki til þessa, unnið einn og tapað einum.

Mynd/ Haukur Helgi Pálsson og félagar í Cholet byrja brösuglega í Frakklandi.