Heimamenn í Þór sigruðu Stjörnuna fyrr í kvöld 85-77 í 4. umferð Dominos deildar karla. Leikurinn sá fyrsti sem að Þór vinnur í vetur, en eftir leik eru þeir í 10. sætinu á meðan að Stjarnan er í því 6.
Kjarninn
Það voru gestirnir sem hófu leik betur í Þorlákshöfn í kvöld. Leiddu eftir fyrsta leikhluta með 21 stigi gegn 16 heimamanna. Þeim mun héldu þeir svo í öðrum leikhlutanum, en þegar að liðin héldu til búningsherbergja var forysta Stjörnunnar 7 stig, 33-40.
Þórsarar mættu svo tilbúnir til leiks í seinni hálfleiknum. Sigruðu 3. leikhlutann með 9 stigum og leiddu því með 2 fyrir lokaleikhlutann 55-53. Í honum gerðu þeir svo það sem þurfti til að sigla að lokum 8 stiga sigri í höfn, 85-77.
Tölfræðin lýgur ekki
Stjarnan passaði boltan ekki nógu vel í leik kvöldsins. Töpuðu helmingi fleiri boltum en heimamenn, 14-7.
Hetjan
Jesse Pellot Rosa var atkvæðamestur heimamanna í kvöld. Með 20 stig, 6 fráköst, 3 stoðsendingar og stolinn bolta á þeim 28 mínútum sem hann spilaði.