Stjarnan tók í dag á móti nágrönnum sínum í Breiðabliki í annarri umferð Domino’s deildar kvenna. Bæði lið leituðu að sínum fyrstu stigum í deildinni eftir töp í fyrstu umferð, en eftir jafnan leik framanaf voru það Garðbæingar sem fóru með sigur af hólmi, lokastaðan 79-65.

 

Lykillinn:

 

Eftir að jafnt var í hálfleik, 47-47, sigldu heimakonur fram úr í þeim seinni. Miklu munaði um að Blikar lentu í villuvandræðum snemma í þriðja leikhluta, en Ivory Crawford erlendur leikmaður gestanna fór útaf með sína fimmtu villu um miðbik þriðja leikhluta. Eftir það var sigur Stjörnunnar aldrei í hættu.

 

Best:

 

Danielle Victoria Rodriguez byrjar sitt annað tímabil hjá Stjörnunni vel en hún skoraði 31 stig í dag og tók auk þess 6 fráköst, gaf 5 stoðsendingar og stal 6 boltum. Það verður klárlega spennandi að fylgjast með þessum frábæra leikmanni í vetur. Hjá Blikum átti Sóllilja Bjarnadóttir fínan leik með 22 stig.

 

Næst:

 

Stjörnukonur eru með sigrinum í dag komnar á blað í Domino’s deildinni og spila næst gegn Njarðvík á útivelli. Nýliðar Blika leita hins vegar enn að sínum fyrstu stigum, en næsti leikur þeirra er á heimavelli gegn Íslandsmeisturum Keflavíkur.

 

Tölfræði leiksins

 

Myndasafn (Ólafur Þór Jónsson) 

 

Viðtal við Pétur Már Sigurðsson þjálfara Stjörnunnar eftir leik

Viðtal við Hildi Sigurðardóttur þjálfara Breiðabliks eftir leik

 

Umfjöllun / Elías Karl Guðmundsson