1. deildarlið ÍA tók í kvöld á móti Dominosdeildarliði Hattar á Akranesi.  Fyrirfram mátti búast við sigri gestanna enda deild ofar en fegurðin við Maltbikarinn er að þar gefst lægra skrifuðum liðum tækifæri að kalla fram eitthvað óvænt.

 

Bæði lið höfðu leikið tvo leiki í deild fyrir þennan bikarleik og bæði lið höfðu tapað báðum.  Það var því öruggt að annað liðið tæki sinn fyrsta keppnissigur þetta tímabilið.  Það mátti ekki miklu muna í kvöld að 1. deildin leggði Dominosdeildina en það kom í hlut gestanna í Hetti að sigra á endanum, lokatölur 78-85.

 

Síðustu sekúndurnar 

Hattarmenn kláruðu leikinn á lokakafla leiksins eftir að ÍA hafði leitt allan leikinn, en þetta er annar heimaleikur ÍA í röð sem endar þannig fyrir þá.  Tvær flautukörfur Hattarmanna í síðustu 3 sóknum þeirra í leiknum tryggðu þeim endanlega sigurinn.

 

Tölur kvöldsins

Skotnýting liðanna í kvöld var nokkuð jöfn en Höttur tók umtalsvert fleiri vítaskot í leiknum auk þess að nýta þau mun betur en leikmenn ÍA.  Lang fyrirferðamestur í tölfræðinni með 36 framlagsstig var Mirko Stefan Virijevic hjá Hetti og fær því útnefninguna maður leiksins.

 

Nánari tölfræði leiksins má finna hér

 

 

Munurinn á liðunum

Það var ekki að sjá að liðin væru í sitthvorri deildinni og er ekki hægt að segja að öðru liðinu hafi langað þetta meira en hinu í kvöld.  En munurinn á liðunum í lokinn var annarsvegar ákvarðanatakan sem var verri ÍA megin auk þess sem heppnin var aðeins meiri Hattar megin eins og flautu þriggjastigaskot í spjaldið ofaní segir til um. 

 

Tveir á tveimur dögum

Höttur var að spila annan leikinn sinn á jafn mörgum dögum.  Oft er sagt að spilaðir leikir séu besta æfingin, það virkaði allavega hjá þeim að þessu sinni.

 

Höttur er því komið áfram í 16 liða úrslit Maltbikarsins er ÍA situr eftir með sárt ennið. 

 

Texti: HGH

Myndir: Jónas H. Ottósson

 

Mynd / ÍA voru í bleikum upphitunarbolum en liðið leggur árlega sitt að mörkum í Bleikum október