Stjörnukonur tóku í kvöld á móti Skallagrími í sjöttu umferð Domino’s deildar kvenna. Fyrir leikinn tróndu Stjörnukonur á toppi deildarinnar með fjóra sigra úr fimm leikjum, en gestirnir höfðu tapað þremur af fyrstu fimm leikjum sínum. Svo fór í kvöld að gestirnir stöðvuðu fjögurra leikja sigurhrinu Garðbæinga með sex stiga sigri, 71-77.

 

 

Lykillinn

Eftir jafnan fyrri hálfleik leiddu heimakonur með þremur stigum í hálfleik 35-32, en í þriðja leikhluta skildi á milli liðanna. Gestirnir unnu þriðja leikhluta með  níu stigum, 19-28, og lögðu grunn að sigrinum. Garðbæingar höfðu spilað vel í fyrri hálfleik en náðu í raun aldrei að ógna Skallagrími í síðari hálfleik, en gestirnir spiluðu frekar stíft í kvöld og létu finna vel fyrir sér.

 

Hetjan

Þær Sigrún Sjöfn Ámundadóttir og Carmen Tyson-Thomas voru bestar í liði gestanna, en Sigrún skoraði 29 stig og tók 10 fráköst, á meðan Tyson-Thomas skoraði 23 stig og tók 20 fráköst. Carmen var heimakonum einstaklega erfið undir körfunni og þegar hún komst á skrið réðu Garðbæingar ekkert við hana. Hún fær því nafnbótina hetjan fyrir þennan leik.

 

Tölfræðin

Tveir leikmenn voru grátlega nálægt þrennu í kvöld en þær Carmen Tyson-Thomas og Dani Rodriguez vantaði eina stoðsendingu hvor um sig til að fullkomna þrennuna. Tyson-Thomas lauk leik með 23 stig, 20 fráköst og 9 stoðsendingar, en Rodriguez skoraði 20 stig, tók 11 fráköst og gaf 9 stoðsendingar.

 

Framhaldið

Stjörnukonur mæta Val á útivelli í næsta leik sínum í deildinni, á meðan Skallagrímur tekur á móti Haukum í Borgarnesi.

 

Tölfræði leiks
 

Viðtöl eftir leikinn:

Carmen Tyson-Thomas: Við vinnum sem liðsheild

Pétur Már: Vorum ragar í seinni hálfleik
 

Umfjöllun / Elías Karl Guðmundsson