ÍR-ingar gerðu heldur betur góða ferð norður í land í fyrstu umferð deildarinnar og lögðu ógnarsterka Stóla með endurkomusigri. Í kvöld hugsuðu ÍR-ingar sér eflaust gott til glóðarinnar er Hattarmenn komu í heimsókn að austan. Nýliðarnir steinlágu heima gegn Garðbæingum í fyrstu umferðinni og líkast til fáir tilbúnir að veðja háum upphæðum á útisigur í þessum leik.

 

Þáttaskil

Gettó-arnir gáfu strax tóninn í liðskynningunni og undirritaður man bara ekki eftir að hafa orðið vitni að jafn kraftmikilli liðskynningu í annarri umferð! Svo var bara byrjað að tralla í framhaldinu og áhorfendur hafa vafalaust fengið úrslitakeppnisstemmningu beint í æð. Algerlega til fyrirmyndar!

 

Matti opnaði svo leikinn sjálfan með þristi og heimamenn tóku strax frumkvæðið. Vörn gestanna var hreyfanleg en bara ekki í réttar áttir og ÍR-ingar fengu allt meira og minna galopið. Heimamenn pressuðu á gestina til að valda þeim andlegum óstöðugleika og það gekk prýðilega. ÍR-ingar komu sér fljótt í 10+ stiga mun og allt var á sömu bókina lært. Mirko reyndi mikið fyrir Austanmenn en hann baslaðist um undir körfunni eins og drukknandi maður með afskaplega döprum árangri. Það var bara klaufaskapur og ekkert sérstök skotnýting heimanna sem gerði það að verkum að 45-29 forysta þeirra var ekki meiri í hálfleik.

 

Höttur byrjaði seinni hálfleik með fjórum stigum í röð en þar var áhlaupi gestanna í raun lokið. Þó hélst munurinn áfram í 15 stigum eða svo frameftir þriðja leikhluta en góður sprettur ÍR-inga í lok hans gerði í raun út um leikinn. Staðan var 69-44 að honum loknum. Fjórði leikhluti var algert formsatriði og kannski fátt um hann að segja, mjög öruggur 88-64 sigur heimamanna niðurstaðan.

 

Tölfræðin lýgur ekki

ÍR-ingar höfðu betur í flestum tölfræðiþáttum leiksins enda öruggur sigur hjá þeim. Bæði lið töpuðu 19 boltum í leiknum sem er auðvitað alltof mikið. Það vakti athygli að ÍR-ingar tóku 37 þriggja stiga skot og hittu úr 12 sem gerir 32% nýtingu. Það er kannski ekki slæmt nema í því ljósi að ansi mörg þeirra voru galopin.

 

Bestu og verstu leikmenn

Matthías Orri var geggjaður í leiknum fyrir utan kannski ekki alveg nógu góða nýtingu. Hann var sorglega nálægt þrennuveggnum góða, endaði með 18 stig og 9 fráköst sem og stoðsendingar. Danero kom næstur með 14 stig og 10 fráköst.

 

Það var fátt um fína drætti hjá liðsmönnum Hattar. Mirko gafst ekki upp, það má hann eiga, var stigahæstur sinna manna með 15 stig og 9 fráköst en nýtingin var alveg hörmuleg. Nefna má þó Sigmar Hákonarson sem setti 12 stig í öllu færri skotum og var framlagshæstur Hattarmanna.

 

Kjarninn

ÍR-ingar tóku þennan leik af miklu öryggi. Það var greinilega þeirra markmið að brjóta gestina niður sem fyrst og sigla þægilegum sigri heim. Það gekk upp. Þetta lítur rosalega vel út hjá þeim – kannski er djarft eða heimskulegt að varpa því fram eftir 2 leiki, en gætu ÍR-ingar orðið spútnik-liðið á þessu tímabili?

 

Það er alveg ljóst að Hattarmenn eiga nokkuð langt í land og auðvelt að sjá þá berjast við Val og Þór Ak um 10. sætið. En Viðar og félagar eru varla búnir að gefast upp eftir tvo leiki, þetta er rétt að byrja. Best að leggja spádómskúluna til hliðar í bili, þó fyrr hefði verið!

 

Tölfræði leiks

Myndasafn

 

 

Umfjöllun / Kári Viðarsson 

Myndir / Bára Dröfn