Keflavík sigraði Hauka í fjórðu umferð Dominos deildar karla með 90 stigum gegn 87. Keflavík því enn, ásamt KR og ÍR, við topp deildarinnar með 6 stig, á meðan að Haukar eru þá 2 stigum fyrir aftan með 4.
Fyrir leik
Bæði höfðu liðin unnið tvo leiki það sem af var deildarkeppni fyrir þennan leik. Keflavík sigraði Grindavík í síðustu umferð, en Haukar lið Þórs.
Kjarninn
Bróðurpart fyrri hálfleiksins leit allt út fyrir að Haukar myndu sigla nokkuð öruggum sigri í höfn. Eftir fyrsta leikhluta leiddu þeir með heilum 9 stigum, 29-20. Keflavík gerði þó vel undir lok hálfleiksins. Unnu muninn hratt niður og fóru með 4 stiga forystu til búningsherbergja í hálfleik, 40-44.
Seinni hálfleikurinn var svo jafn og spennandi allt til endans. Liðin skiptust á að hafa forystuna, en undir lokin var það svo að Keflavík var yfir. Hefði allt eins getað farið á annan veg.
Sterkt
Besti leikmaður Keflavíkur, Cameron Forte, var í villuvandræðum stóran hluta leiksins. Spilaði lítið í seinni hálfleiknum. Var drjúgur meðan hann var inni á, en Keflavíkurliðið sýndi virkilegan styrk með því að klára leikinn, nánast, án hans.
Tölfræðin lýgur ekki
Heildarskotnýting Keflavíkur í leiknum var 49% á móti aðeins 39% hjá Haukum. Þá var þriggja stiga nýting Keflavíkur 50% á móti 35% hjá Haukum.
Hetjan
Reggie Dupree var frábær í kvöld. Skoraði 29 stig, tók 6 fráköst, stal 2 boltum og varði 2 skot á þeim 35 mínútum sem hann spilaði. Skoraði einnig mjög mikilvæga körfur fyrir liðið undir lok leiks, sem segja mætti að hefðu að nokkru leyti unnið leikinn fyrir þá.
Umfjöllun / Davíð Eldur
Myndir / Axel Finnur