Þór lagði Keflavík örugglega í kvöld þegar liðin mættust í annarri umferð Domino´s deildar karla í körfubolta þegar upp var staðið hafði Þór skorað 90 stig gegn 78 gestanna.

 

Leikur Þórs og Keflavíkur í kvöld var hin besta skemmtun og ljóst var að bæði lið voru mætt til leiks staðráðin í að taka stigin tvö sem í boði voru. Leikurinn var jafn framan af fyrsta fjórðungs og skiptust liðin á að leiða með þó ekki meir en með 2-3 stigum. Þegar um þrjár mínútu lifðu af fjórðungnum leiddu gestirnir með einu stigi 20-21 fylgdi 2-7 kafli og þeir leiddu með fimm stigum 23-28 þegar annar leikhlutinn hófst. 

 

Þórsarar byrjuðu annan leikhlutann af krafti og eftir tveggja mínútna leik voru þeir komnir með eins stigs forystu 29-28. Þórsliðið fann sig vel og næstu mínútur náðu þeir mest sjö stiga forskoti 46-39 og tvær mínútur eftir að fyrri hálfleik. Leikmenn Þórs virtust vera búnir að finna taktinn og fín barátta í liðinu. En í þessari stöðu hrökk allt í baklás um tíma hjá Þór og þeir skoruðu ekki stig síðustu tvær mínúturnar í fyrri hálfleik og gestirnir náðu að minnka muninn í eitt stig fyrir hálfleik 46-45. 

 

Keflvíkingar byrjuðu þriðja leikhlutann ágætlega og komust fljótt yfir 48-50 og þarna fór að fara um marga. Jafnt var á með liðunum fram í miðjan leikhlutann en þá komst Þór aftur yfir 54-53. Þegar tvær mínútur voru eftir að þriðja leikhluta hrukku Þórsarar í gírinn. Vörnin small saman og skellt var í lás og í kjölfarið fylgdi 9-0 kafli sem breytti stöðunni í 69-58 og Þór leiddi því með ellefu stigum þegar fjórði og síðasti leikhlutinn hófst. Þór vann þriðja leikhlutann 23/13.

 

Þórsliðið var komið á bragðið og leikmenn börðust eins og ljón og geisluðu af sjálfsöryggi og menn litu ekki til baka. Leikmenn Þórs fórnuðu sér í alla bolta, Ingvi Rafn stal hverjum boltanum á fætur öðrum, Sindri henti sér á alla bolta og var Keflvíkingum alger plága og ungu leikmennirnir nýttu sín tækifæri eins og best verður á kosið. Þórsliðið hélt út með stæl, vann leikhlutann 21-20 og landaði 12 stiga sigri 90-78. 

 

Gangur leiksins: 23/28 – 23/17 – 23/13 – 21/20

 

Sigur Þórs í kvöld var liðsheildarinnar, en þeir Ingvi Rafn og Júlíus Orri stálu í raun senunni. Ingvi lék á alls oddi og skoraði grimmt, stal hverjum boltanum á fætur öðrum og Júlíus Orri var algerlega frábær og setti niður 13 stig og spilatími hans 26:10 mínútur. Ragnar Ágústsson spilaði þrjár mínútur og skilaði því með sóma og sama má segja um Svavar Sigurðarson sem lék þó ekki nema mínútu. Marques Oliver setti niður 21 stig og reif niður 15 fráköst. Bjarni Lárus, Pálmi Geri og Hreiðar Bjarki áttu allir fína spretti. Eins og áður segir sigur Þórs var liðsheildarinnar.

 

Hjá Gestunum var Cameron Forte frábær hann var með 30 stig og 16 fráköst, Magnús Már Traustason 15 stig og 4 fráköst, Guðmundur Jónsson fyrrum leikmaður Þórs var með 13 stig, Ragnar Örn Bragason 6 stig, sem og Ágúst Orrason og Daði Lár Jónsson 2 stig. Þröstur Leó Jóhannsson fyrrum leikmaður Þórs náði sér ekki á strik í kvöld og náði ekki að skora en tók eitt frákast. 

 

Gefa verður áhorfendum hrós fyrir þeirra framlag í kvöld. Þeir voru líkt og leikmennirnir sjálfir frábærir og algerlega til fyrirmyndar. Þeir voru drifnir áfram af hópi Mjölnismanna sem voru eins og þeim einum er lagið – geggjaðir. Áhorfendur voru á bilinu 280-300. 

 

Og stór hluti af skemmtilegri stemningu er partur Haraldar Ingólfssonar í hlutverki kynnis og dj hann fær fullt hús stiga fyrir hans vinnu. 

 

Eftir leiki umferðarinnar er Þór í sjötta sæti deildarinnar með 2 stig líkt og fimm önnur lið, en Stjarnan, ÍR og Grindavík eru á toppi deildarinnar með 4 stig. 

 

Næsti leikur Þórs verður útileikur gegn Tindastóli fimmtudaginn 19. október klukkan 19:15. 

 

Tölfræði leiksins

 

Myndasafn

 

Viðtöl: 

 

 

Umfjöllun, myndir og viðtöl / Palli Jóh – Thorsport.is