Heimamenn í Vestra sigruðu Fjölnir í kvöld, nokkuð sannfærandi 93 – 74. Fjölnir sem á köflum spilaði ágætan körfubolta áttu í erfiðleikum með þétta vörn heimamanna. Gestirnir gerðu atlögu að heimamönnum í þriðja leikhluta og náðu að minnka muninn í 7 stig. Þeir komust þó aldrei nær og Vestramenn sigruðu leikinn örugglega. Dómgæslan var á köflum alveg stórfurðuleg. En þeir Gunnlaugur Briem og Sveinn Björnsson dæmdu sitt og hvað og þurftu að funda að minnsta kosti sex sinnum á meðan á leiknum stóð. Það eina góða sem hægt er að segja um dómgæslu kvöldsins er að hún hallaði á hvorugt lið. Hún var bara léleg frá byrjun leiks til enda.

 

 

Þáttaskil:

 

Nemanja Knezevic fékk á sig tvær villur snemma í leiknum og á 5 mínútu var honum skipt út fyrir Andre Cornelius nýjan erlendan leikmann Vestra í stöðunni 9 – 7. Cornelius sem er ný lentur og búin að mæta á eina æfingu byrjaði að krafti. Skoraði úr fallegu sniðskoti eftir fyrstu snertingu, stal stuttu síðar boltanum, setti niður þrist, varði síðan skot og skoraði síðan annan þrist. Þvílík innkoma hjá þessum leikmanni sem gerði varnarskipulag gestanna allt mun flóknara.

 

Tölfræðin lýgur ekki:

 

Vestri spilaði leikinn á 7 mönnum á meðan gestirnir dreifðu mínútunum mun meira. Það má þræta vel og lengi um mínútudreifingu en á meðan fæturnir eru ferskir svona í byrjun tímabils þá þurfa ef til vill ekki allir í liðinu að vera með 5 mínútur eða meira inn á vellinum. Tíminn leiðir svo í ljós þegar líða fer á tímabilið hvort leikmenn Fjölnis hafi hag af því að hafa allir öðlast reynslu án þess að neinn hafi keyrt sig út.

 

Hetjan:

 

Í liði gestanna var Sigvaldi Eggertsson eina ljósið í myrkrinu með 21 stig og 26 framlagspunkta. Andre Cornelius átti frábæra innkomu í lið heimamanna og Ingimar Aron Baldursson spilaði hörku vörn og setti niður 16 stig. En maður leiksins var án efa Nemanja Knezevic sem setti niður 24 stig og tók 18 fráköst á 20 mínútum.

 

Kjarninn:

 

Andre og Nemanja spiluðu sitthvorar 20 mínúturnar og leikur heimamanna kollvarpaðist eftir því hvor þeirra var inn á. Með Nemanja lokuðu þeir teignum í vörn og ógnuðu honum í sókn. En með Andre sprengdu þeir upp vörn gestanna með snerpu og hraðabreytingum. Það er erfitt að skipuleggja vörn á móti liðum sem geta breytt svona algjörlega um leikstíl. Vestra menn eru á siglingu og undirrituðum finnst eins og Fjölnir eigi fullt inni.

 
 
 
Umfjöllun / Þormóður Logi Björnsson