ÍR sigraði Hött fyrr í kvöld í 2. umferð Dominos deildar karla. Karfan spjallaði við leikstjórnanda þeirra Matthías Orra Sigurðarson eftir leik, en lið hans hefur nú unnið tvo fyrstu leiki tímabilsins.

 

Hérna er meira um leikinn

 

 

 

Frábær byrjun hjá ykkur ÍR-ingum og hlýtur að vera mikil gleði i Hellinum?

Jjájá, þetta gekk bara eins og við lögðum upp með. Við vildum koma þessu í þægilegan leik sem fyrst og við náðum því strax í fyrsta leikhluta og þægileg sigling til sigurs þaðan.

 

Einmitt, þið voruð að pressa á þá og planið var kannski hreinlega það að brjóta þá andlega sem fyrst?

Það var nákvæmlega planið – við ætluðum líka að ná að spila á öllum mönnum og það gekk eftir eins og eiginlega allt sem við ætluðum okkur. Þó er enn smá haustbragur á okkur, sóknarlega erum við að klikka á galopnum skotum en þetta kemur og við erum frekar ánægðir með þetta.

 

Mér fannst eins og þið hafið gert ykkur fulla grein fyrir því að þriggja stiga skotin voru kannski full áberandi – var talað um það í leikhéum að reyna að fá meira jafnvægi sóknarmegin?

Það er hárrétt, það lá í augum uppi, við vorum kannski aðeins of graðir í því að taka þessi opnu skot….

 

Já þau voru líka meira og minna galopin!

…já þau voru nefnilega rosalega opin! En við þurfum að temja okkur það líka að koma boltanum inn á Ryan, stóra manninn okkar, einkum þegar við erum ekki að hitta þessum skotum, og þegar hann fær boltann inn í teig þá gerist yfirleitt eitthvað gott.

 

Með fullri virðingu fyrir Hetti þá vinnið þið kannski tæplega betri lið deildarinnar með þriggja stiga skotum?

Nei, ég held ekki, við myndum frekar gera það með því að koma boltanum inn á Ryan og byggja sóknirnar okkar þaðan – þá væri hægt að brjóta þetta upp með þristum úr hraðaupphlaupum og þannig þegar við erum komnir með fæturnar undir okkur. Við vinnum held ég líka fá lið ef við ætlum að klúðra svona mörgum opnum skotum – við eigum eftir að koma okkur almennilega í gang, nýta þessi skot og nota svo Ryan betur sem mun verða risastór fyrir okkur í vetur – hann gefur okkur ,,steady“ stig inn í teig.

 

Hversu langt getur ÍR-liðið farið í deildinni í vetur?

Ég held að við gætum hæglega náð heimaleikjarétti, það er gerlegt og eitthvað sem við stefnum að. Okkur líður eins og við getum ekki tapað á heimavelli og við teljum okkur geta stolið 5 útileikjum eða svo sem gæti fært okkur a.m.k. fjórða sæti.

 

Talandi um heimaleiki ykkar – stemmarinn var bara eins og í úrslitakeppni hérna í kvöld og það þarf varla að ræða það hversu ánægðir þið eruð með það?

Já algerlega, það gefur okkur mikið búst, sérstaklega í byrjun leikja þegar andstæðingarnir láta svolítið finna fyrir sér en þessi stuðningur gefur okkur gorma undir lappirnar, kemur okkur vel af stað og ómetanlegt að hafa svona stuðningsmenn. Þeir verða hérna, þeir munu ekki fara neitt!

 

 

Viðtöl / Kári Viðarsson