Þrír leikir fóru fram í fimmtu umferð Dominos deildar kvenna í kvöld. Einn leikur fór fram síðasta sunnudag er Stjarnan vann góðan sigur á Snæfell. Á Hlíðarenda var Njarðvík í heimsókn þar sem heimakonur í Val unnu nokkuð sannfærandi sigur. 

 

Umfjöllun um helstu þætti leiksins má finna hér að neðan:

 

 

 

Gangur leiksins: 

 

Njarðvík var mun sterkara liðið á upphafsmínútunum. Liðið var tilbúið að skilja allt eftir á gólfinu og náði að komast í 4-9 eftir fyrstu þrjár mínúturnar. Því miður hélt þetta ekki lengi hjá Njarðvík en liðið var einungis með tvö stig í viðbót þann leikhlutann. Valskonur náðu meira flæði í seinn leik og sjálfstraustið í vörninni fylgdi með. Staðan eftir fyrsta leikhluta var 22-11 fyrir Val. 

 

Annar leikhluti var algjörlega í eign Vals. Liðið náði betra jafnvægi sóknarlega og fór að sundurspila vörn Njarðvíkur sem virtist ekki geta náð stoppi. Staðan í háfleik 50-26 fyrir Val sem var einfaldlega mun sterkara á flestum stöðum vallarins. 

 

Munurinn var of mikill á liðunum í hálfleik til að Njarðvík ætti von á að koma til baka. Valur átti góðan þriðja leikhluta sem gerði endanlega útaf við leikinn. Njarðvík náði upp fínni frammistöðu þegar leið á leikinn og nokkuð ljóst að liðið á enn fullt inni. Lokastaðan í leiknum 104-72 fyrir Val.

 

 

Hetjan:

 

Alexandra Petersen átti magnaðan leik í kvöld. Hún endaði með 31 stig, 8 stoðsendingar og 6 fráköst. Auk þess hitti hún úr öllum fimm þriggja stiga skotum sínum eða fimm talsins. Ofan á það var hún með 75% nýtingu í leiknum. Darri Freyr þjálfari Vals sagði í viðtali við karfan.is að Lexi væri enn að venjast því að vera fyrsti kostur í sókinni og ætti enn eftir að bæta sinn leik. Ef svo er þá er ljóst að eiga má von einhverju ótrúlegu. 

 

Kjarninn: 

 

Með sigrinum er Valur komið í upp að hlið Stjörnunnar og Hauka í efsta sæti með 8 stig. Liðið spilaði heilt yfir ansi vel. Flæðið var gott í sóknarleiknum og vörnin átti fína sprett. Það vantar þó uppá aðeins meiri stöðugleika í vörninni. Það er bjartara yfir Njarðvík í kvöld en í síðustu leikjum. Liðið virðist vera að ná meira jafnvægi en enn vantar helling uppá, sérstaklega varnarlega. Liðið þarf að finna taktinn fljótlega og ná í sigur þar sem það gæti orðið erfitt að lenda langt á eftir snemma á tímabilinu. 

Tölfræði leiksins

 

Myndasafn (Bára Dröfn) 

 

Viðtöl eftir leik:

Hallgrímur Brynjólfsson þjálfari Njarðvíkur eftir leik 

Darri Freyr Atlason þjálfari Vals eftir leik

Umfjöllun / Ólafur Þór Jónsson

Myndir / Bára Dröfn