Óánægja þjálfara Þórs, Einars Árna Jóhannssonar, eftir leik gegn Grindavík í fyrstu umferð Dominos deildar karla fór ekki framhjá þeim sem að horfðu á viðtal sem Karfan tók við hann eftir leik. Þar sagði hann leikmenn sína suma vera alvarlega veika og sagðist hann allt annað en þakklátur mótanefnd fyrir að hafa sett þennan leik á svo snemma eftir að honum var upphaflega frestað á föstudaginn síðasta. Karfan heyrði bæði í honum og KKÍ í dag til þess að athuga hvað hafi verið í gangi þarna.

 

Upphafleg ástæða þess að leik liðanna var frestað frá síðasta föstudegi var sú að 11 af 14 leikmönnum liðsins höfðu veikst af matareitrun frá því að liðið kom heim úr æfingaferð frá Spáni. Þar af voru 7 leikmenn sem glímdu við veikindin í vikutímabil, en 4 voru með vægari einkenni. Í leik gærkvöldsins restaði það á að 2 leikmenn liðsins voru ekki með á skýrslu og samkvæmt þjálfaranum voru það 3 leikmenn sem spiluðu leikinn, sem hefðu alls ekkert átt að spila.

 

 

Samkvæmt Einari er ekki hægt að fullyrða um að þau meiðsli sem leikmenn hafi orðið fyrir í leiknum í gær hafi verið vegna þessara veikinda, en bæði Ólfur Helgi Jónsson og Snorri Hrafnkelsson snéru sig á ökkla í leiknum og luku þar með þáttöku í honum. Þá segir hann að bæði Þorsteinn Már Ragnarsson og Óli Ragnar Alexandersson hafi farið frammúr sér í leiknum, þrátt fyrir að hafa kannski ekki spilað mikið.

 

Segir hann þó að þjálfarar liðsins taki á sig einhverja sök í því að hafa leyft sumum leikmannana að fara af stað, vitandi það að þessi veikindi og fjarvera frá æfingum gæti haft afleiðingar í leik gegn jafn sterku liði.

 

Segir Einar að staðan hafi verið metin eftir hádegi á föstudag og þá hafi þriðjudagur verið nefndur, en honum þótti það ótrúleg hugmynd í ljósi þess að liðið á leik aftur í deildinni á fimmtudag og síðan í bikarkeppninni á sunnudaginn. Þá hafi verið lagt til að hann yrði settur í kringum næstu lausu helgi milli umferða og nefndi þar mánudaginn 23. október í því samhengi.

 

Ekkert var hlustað á þessar tillögur Þórs og segist Einar ekki sjá hvers vegna mótanefnd þurfti að fara þessa leið. Bæði hafi hann vitað að ekki hafi þetta verið vegna pressu frá Stöð 2 Sport, sem gat hvort sem er ekki sýnt leikinn. Einnig segist hann efast um að nokkur pressa hafi verið frá Grindavík, þar sem þeir hafi sýnt þessu mikinn skilning.

 

Að lokum vildi Einar koma því á framfæri að þessi óánægja hans og félagsins hefði orðið ljós burtséð frá úrslitum leiksins, þar sem þeir hafi hræðst um heilsu manna og hvort þetta myndi elta liðið í næstu verkefni.

 

Karfan hafði einnig samband við KKÍ fyrr í dag og spurði þá út í afhverju þessum leik hafi ekki verið frestað frekar í ljósi þeirra alvarlegu veikinda sem herjuðu á annað liðið. Því svöruðu þeir um hæl:

 

“Skv. 13. grein reglugerðar um körfuknattleiksmót þá skal leikur sem er frestað fara fram næsta dag sem fært þykir. Þegar ljóst var að nauðsynlegt var að fresta leik Grindavíkur og Þórs Þorlákshafnar í Domino‘s deild karla síðastliðinn föstudag vegna veikinda í liði Þórs Þorlákshafnar hófst strax vinna við að finna nýjan leikdag og var það gert í samráði við bæði lið. Eftir það samráð var niðurstaðan sú að leikurinn fór fram á sunnudaginn 8. október kl. 19.15.”

 

Hvort sem að þarna var um að ræða næsta færa dag fyrir leikinn eða ekki er ljóst að engum er til framdráttar að annað liðið geti vart mætt til leiks. Þess þá heldur að leikmenn þess séu í beinni hættu á meiðslum eða frekari veikindum við að taka þátt. Þá er líka miður að leikur milli tveggja jafn frambærilegra liða og ekki upp á minna heldur en gjörvallan Suðurstrandaveginn sé ekki á færi sjónvarps til þess að sýna beint frá.