B-lið Vestra og KR mættust á helginni í frestuðum leik í Maltbikar karla á eins ókristilegum tíma og hægt er, eða klukkan 11:00 á laugardagsmorgni. KR-ingar tóku lengri leiðina í leikinn með 2 tíma flugi og 6 tíma keyrslu en það hafði þó lítil áhrif á lappirnar þeirra því stökk- og sprengikrafturinn var löngu horfinn.

 

Þáttaskil
Eftir hnífjafnan fyrri hálfleik, þar sem Baldur Ingi Jónasson sýndi KR-ingum hver væri besta þriggja stiga skyttan í bænum, þá skyldu leiðir um miðjan þriðja leikhluta þegar gestirnir röðuðu niður hraðaupphlaupskörfum. Sumir myndu horfa á það sem merki um hraðfara lið, aðrir myndu benda á að þeir hafi einfaldlega ekki verið komnir yfir miðju þegar einhver af Vestramönnunum glopraði boltanum á sínum sóknarhelmingi. Hvað svo sem satt er þá náðu heimamenn aldrei að brúa þá forustu og KR-b sigldi örugglega inn í 16 liða úrslitin.
 

Maður leiksins
Tveir 15 ára dómarar fengu eldskírn sína í leiknum og hefðu sumir talið að það væri uppskrift af stórslysi enda samanstóðu bæði lið af annáluðum og háværum talsmönnum þeirrar kenningar að dómarar viti ekkert um dómgæslu. Það varð þó ekkert um það að þeir fengju hárþurrku meðferðina í hverri sókn því enginn annar en Fannar Ólafsson tók að sér að verða rödd skynseminnar og friðarins, og tók hvern þann mann á teppið sem svo mikið sem horfði skringilega til dómaranna. Sumir myndi segja að hann ætti skilið friðarverðlaun Nóbels en við látum okkur nægja að titla hann mann leiksins.

 

Tölfræðin
Ólafur Már Ægisson var stigahæstur á vellinum með 21 stig á meðan Skarphéðinn Ingason lagði allt upp fyrir alla og endaði með 8 stoðsendingar. Hjá Vestra var hinn síungi Baldur Ingi Jónasson bestur með 14 stig, 8 stoðsendingar og 6 stolna bolta á meðan Hvergerðingurinn Sveinn Rúnar Júlíusson hlóð í ágætis tvennu með 12 stigum og 10 fráköstum.

Umsögn: Tjörvi Unnsteinsson

 

Háuljósin úr leiknum: